Manneskjan á svölunum
Það er illt að vera rekinn út af heimili sínu að reykja. Þetta má manneskjan í húsinu beint á móti Mánagötu 24 þola, en það má nánast ganga út frá því sem vísu í hvert sinn sem við Steinunn lítum út um gluggann á svalahurðinni í stofunni, að sama manneskjan norpi þar í dúnúlpu og reyki. Það merkilega er að reykingarmanneskjunni virðist alltaf vera jafn kalt, hvort sem úti er sól og blíða eða skítaveður.
Ef ég væri áhugamaður um samsæriskenningar myndi ég líklega trúa því að einhver leyniþjónustan sé með útsendara sinn í Norðurmýrinni að fylgjast með mér og að reykingarnar á svölunum séu bara yfirskin – enda sést prýðisvel inn í stofuna okkar af svölunum. Ef sú er raunin, er vesalings njósnarinn ekki öfundsverður. Ekki aðeins er hann að krókna úr kulda, heldur getur lungnakrabbameinið ekki verið langt undan.
* * *
Grein Jónínu Benediktsdóttur í Mogganum í dag er líklega geggjaðasta lesning sem ég hef séð lengi. Mjög lengi.
* * *
Steinunn er komin inn á Sankti Jó og ekki vonum fyrr. Við brugðum okkur á Vitabar með Palla og Hildi um daginn, en til að komast alla leið frá Mánagötunni upp á Vitastíg þurfti hún að grípa til hækju. Það var í fyrsta sinn í þrjú ár sem Steinunn hefur þurft slíkt hjálpartæki til að fara sinna ferða.
En á föstudaginn losnar hún út aftur og verður orðin stór og sterk á ný. Það er heppilegt, einkum þar sem við ætlum að skella okkur í heljarmikla reisu austur á land í næstu viku ásamt gömlu hjónunum. Ferðaáætlunin liggur ekki fyrir í smáatriðum, en ljóst að farið verður upp að Kárahnjúkavirkjun. Hvað sem mönnum kann nú að finnast um ágæti þessara framkvæmda verður örugglega magnað að sjá umfang þeirra.