Ég er aumingi
Steinunn kemur aftur heim af Sankti Jó seinnipartinn og það ekki vonum fyrr. Hún er búin að vera rétt á þriðja sólarhring í burtu, en samt er allt komið í hönk á Mánagötunni.
Svo við byrjum á jákvæðu nótunum, þá hefur mér tekist ýmislegt á þessum tveimur dögum:
* Ég er búinn að vinna eins og skepna
* Ég er búinn að horfa á tvo fótboltaleiki
* Ég er búinn að fara í tvær heimsóknir á spítalann
* Ég er búinn að gaspra í útvarpinu um sagnfræðilegt efni sem ég er enginn sérfræðingur í
* Ég er búinn að framleiða smáslurk af barmmerkjum fyrir samtök hér í bæ
En hverju hef ég klúðrað á þessum skamma tíma? Jú, meðal annars þessu:
* Allt leirtau heimilisins er óuppvaskað, sem er visst afrek vegna þess að ég hef ekkert verið heima
* Ég lofaði að skipta á rúminu og klúðraði því
* Ég hef étið eina almennilega máltíð – það var í mötuneyti Orkuveitunnar. Bæði kvöldin lét ég nægja að fá mér serjós í kvöldmat (laust fyrir miðnætti)
* Ég hef ekki rakað mig og minni helst á uhyret frá Tasmanien
* Það er allt á rúi og stúi í stofunni
* Ég hef vakað lengst fram á nætur, mest við að góna á sjónvarp eða vídeó
* Drakk of mikinn bjór og tókst meira að segja að spilla nýhöfnu heilsuræktarátaki Palla
– Þetta er afleiðingin af því að ég sé skilinn einn eftir heima í tvo daga. Ef Steinunn hefði farið í viku til tíu daga er viðbúið að ég hefði hætt að þvo mér og pissað í öll horn í íbúðinni.
En nú taka við bjartir tímar. Hinn gamli, atorkusami Stefán snýr aftur. Á kvöld vaksa ég upp eins og vindurinn, dreg björg í bú og um helgina verður grasið í garðinum slegið – með þeim fyrirvara þó að til séu landbúnaðarverkfæri sem unnið geta á fífla- og njólabeðunum. Minna má það ekki vera, því nágrannarnir handan Skarphéðinsgötunnar (þar sem reykingarnjósnarinn á svölunum býr) eru búnir að slá sína flöt og þar með er ég eini skúnkurinn í hverfinu. – Reyndar var kostulegt að fylgjast með þessu átaki nágrananna, því garðslátturinn var greinilega samtaksverkefni fólksins í stigagangnum. Filipseyskur karlmaður sló blettinn og eldri kona sá um að raka. Á meðan á verkinu stóð reyndu þau að spjalla um daginn og veginn á ensku. Það samtal fór þannig fram að maðurinn sagði „Yes, yes“ við öllu en skildi augljóslega ekki neitt, en konan hélt fyrirlestur um illsku araba sem væru vondir við konur og stæðu stöðugt fyrir hryðjuverkum og væru hvergi til friðs.
* * *
Framarar voru langflottastir á þriðjudaginn. Það skyldi þó ekki vera að rættist úr þessu tímabili eftir allt saman?
Víkingar voru á hinn bóginn ferlega slappir að tapa fyrir Stjörnunni heima. Stjörnumenn skoruðu víst þrjú mörk á sex mínútum, en í seinni hálfleik óðu Víkingar í færum og hálf-færum. Það vantar sóknarmann sem kann að slútta. Því miður hef ég ekki mikla trú á að Víkingar sleppi upp um deild. (Eins og flestir Framarar þá er ég alltaf pínkulítið veikur fyrir Víkingum. Fram og Víkingur eru einu alvöru systkinafélögin í Reykjavík.)