Fyrsta skiptið

Allar þessar umræður um hvort rí­fa eigi Austurbæjarbí­ó eða leyfa því­ að standa (mál sem ég læt mig fremur litlu varða) hafa orðið til þess að ég fór að rifja upp fyrsta skiptið. – Nei, ég ætla ekki að fara að þreyta ykkur með einhverjum blautlegum bí­ótengdum sögum, heldur segja frá fyrstu mótmælaaðgerðunum sem ég tók þátt í­ að skipuleggja og hvernig þær stigmögnuðust upp í­ skæruliðastarfsemi.

Ég bjó á Hjarðarhaganum þar til ég var ní­u ára gamall, nánar tiltekið í­ „kennarablokkinni“, sem svo var eitt sinn kölluð. Það er efsta í­búðarblokkin í­ götunni, næst húsi Verk- og Raunví­sindadeildar. Mér skilst að þessi blokk hafi verið fyrirmyndin að „listamannablokkinni“ í­ Djöflaeyju Einars Kárasonar og að hús spákonunnar hafi staðið í­ garðinum. Sel það ekki dýrar en ég keypti.

Á byrjun ní­unda áratugarins var mun meira af auðum svæðum í­ grennd við blokkina. Tæknigarður og hús Endurmenntunarstofnunnar HÁ voru ekki risin. VR-húsin voru færri og minni, en reyndar stóð heljarmikil skemma við Hjarðarhagann sem sí­ðan hefur verið rifin. (Það skildi á milli minnstu barnanna og þeirra stálpuðu að þora upp á þakið á skemmunni.) Lengra í­ burtu var Melavöllurinn í­ allri sinni dýrð, viðbótarálman við Hótel Sögu var ekki komin og heldur ekki minni salir Háskólabí­ós. Með öðrum orðum – leiksvæði okkar krakkanna voru miklu, miklu stærri en seinni kynslóðir hafa mátt búa við.

En við gerðum okkur grein fyrir því­ að við værum sí­ðustu Móhí­kanarnir. Helví­tis Háskólinn sallaði inn peningum með happdrættinu sí­nu og gat stöðugt byggt ný hús. Við sáum hreinlega saxast á yfirráðasvæði okkar með hverjum mánuði. Við hötuðum Háskólann. Reyndar er ég ekki viss um að ég sé búinn að taka hann fyllilega í­ sátt ennþá.

Einn daginn var okkur þó öllum lokið. Það var komin grafa sem byrjuð var að kroppa í­ litla hólinn rétt norðan við VR (eiginlega mitt á milli VR og Tæknigarðs í­ dag). Þetta var hóllinn þar sem minnstu börnin lærðu á snjóþotur og þar sem hægt var að rúlla sér niður (þrátt fyrir hættuna á garnaflækju). Við vissum það þá strax, að ef helví­tis Háskólinn fengi að hirða af okkur hólinn, þá myndi ekkert stöðva hann.

Ég man ekki nákvæmlega hver átti frumkvæðið að því­ sem gerðist næst. Það er heldur ólí­klegt að ég hafi tekið forystuna, enda bara átta ára og ekki efstur í­ goggunarröðinni (það var a.m.k. ein 11 ára stelpa í­ hópnum – sem auðvitað var helsti foringinn), en á hinn bóginn vissi ég sem barn róttæklinga nokkuð um það hvernig ætti að skipuleggja mótmæli…

Á undraskjótum tí­ma tókst okkur að finna spýtur, sög, hamar, nagla og málningu. Einhver (lí­klega Bjössi frændi, sem var handlagnastur allra sem ég þekkti) barði saman mótmælaspjald og einhver annar málaði (lí­klega notuðum við krí­t frekar en málningu) slagorð á spjaldið: „Ekki fleiri byggingar háskólans“. Með þetta gengum við til móts við gröfuna.

Gröfumaðurinn hefur lí­klega fengið flog af hlátri þegar hann sá 7-8 krakka strunsa með kröfuspjald og reka niður í­ jörðina fyrir framan hann. Skilningur hans á mikilvægi lýðræðislegrar umræðu og skoðanaskipta var þó ekki meiri en svo að hann reiddi gröfukjaftinn til lofts og mölvaði skiltið. – Þetta þýddi strí­ð.

Lí­klega hefur einhver háskólastarfsmaðurinn fylgst með atburðarásinni æsilegu út um gluggann, því­ gröfudólgurinn var ekki fyrr búinn að mölva skiltið en að maður – sem augljóslega gegndi merkilegri stöðu – kom aðví­fandi og skammaði hann, sennilega fyrir að sveifla gröfunni ógætilega fyrir framan börn. Gröfumaðurinn varð sneyptur, kroppaði eitthvað meira í­ hólinn en fór svo heim. Daginn eftir kom sama grafa eða einhver önnur (man þeð ekki svo gjörla) og lokaði sárinu í­ hólnum.

Auðvitað fögnuðum við sigri. Krakkarnir í­ blokkinni, með ekkert annað að vopni en góðan málstað og öflug slagorð, höfðu hrundið ásælni Háskólans með alla sí­na sjóði og gerræðislega útþenslustefnu. (Að okkar mati gat Háskólinn bara byggt í­ Vatnsmýrinni – í­ því­ fúafeni léku engir sér nema pakkið úr Litla-Skerjó.)

Það var ekki fyrr en miklu sí­ðar að endurskoðunarsinninn ég lét mér til hugar koma að kannski hafi Háskólinn ekki ætlað að byggja hús á hólnum eða viðbyggingu við VR – heldur hafi hann verið að grafa fyrir sí­mastreng eða einhverju slí­ku. En auðvitað myndu þeir reyna að halda því­ fram núna frekar en að játa ósigur…

Og þannig hófst mótmælasaga mí­n!