Á nótt dreif ég það loksins af að lesa Mýrina eftir Arnald. Fannst það einhvern veginn tilheyra að hafa lesið þessa bók úr því að maður býr í Norðurmýrinni, auk þess sem mér skilst að þetta sé besta glæpasaga Arnalds og ein sú besta af þeirri grein bókmennta eftir íslenskan höfund.
Hrifinn? Tja, ekkert sérstaklega. Jújú, bókin hélt svo sem athygli og ég spændi mig í gegnum hana í einni striklotu, en hún er óralangt frá því að vera einhver sérstök snilld. Kemur þar margt til.
Strangt til tekið er Mýrin ekki glæpagáta í þeim skilningi að höfundur tefli fram nokkrum hugsanlegum sökudólgum og að böndin berist frá einum til annars, helst með óvæntum útspilum á 30 síðna fresti. Þess í stað er hún aðallega lýsing á framvindu rannsóknar – sem nánast strax í upphafi beinist í eina átt. Þetta er algjör óþarfi í Mýrinni, því hæglega hefði mátt kynna tilteknar persónur fyrr og gera þær grunsamlegar til að afvegaleiða lesandann.
Auðvitað þurfa glæpasögur ekki að bjóða upp á fjölda mögulegra illvirkja og það má finna mörg dæmi um góðar sögur sem eru eins upp byggðar og Mýrin hvað þetta varðar, en þá er líka brýnt að höfundurinn hafi skothelt plott og áhugaverða aðalsöguhetju. Því er ekki fyrir að fara í þessari bók því ekki er gengið nægilega vel frá nokkrum lausum endum og frásögnin af einkalífi aðalhetjunnar er þrautleiðinleg. Strax um miðja bók var maður farinn að óska sér þess að þessi fúla dóttir sykki sér bara á bólakaf í dópið og hætti að bögga mann með nærveru sinni.
Að þessu öllu sögðu er samt rétt að taka það fram að ég gæti alveg hugsað mér að lesa meira eftir Arnald ef önnur afþreying er ekki í boði. Hins vegar skal enginn ljúga því að mér framar að þýskir túristar sæki í að ráfa um Norðurmýrina eftir lestur þessarar bókar, eins og reynt var að halda fram á dögunum.
* * *
Lesendur þessarar síðu sem luma á rottueitri eða einhverju því öðru sem drepið getur heimilisketti er bent á að setja sig í samband við besta og frægasta bloggarann. Klukkan fjögur í nótt skreið grábröndóttur heimilisköttur inn um gluggann á svefnherberginu, stökk niður á gólf, skokkaði eftir gólfinu inn í stofu og tók sér stöðu við gullfiskakúluna – albúinn að éta heimilisgullfiskinn „Fisk“.
Steinunn greyið fékk nánast hjartaáfall þegar hringlaði í bjöllunni um háls innbrotsþjófsins og er núna að tala sig upp í að við hættum að sofa við opinn glugga – sem leiða mun til dauða míns af völdum hitasvækju og köfnunnar. Betra væri að eitra fyrir karratkvikindinu og sauma sér lúffur úr feldi hans.
* * *
Ekki verður bloggað um hörmungar gærkvöldsins á sviði knattspyrnunnar. Lesendur eru þó fullvissaðir um að Framarar í Vesturbænum munu ekki láta þessu ósvarað. Viðbrögð okkar munu koma á óvart og valda uppnámi í herbúðum KR…