…það þurfti ekki að bora! Það voru engar holur! – Sagði smástelpan í Colgate-auglýsingunni hróðug.
Besti og frægasti bloggarinn er ekki síður rogginn eftir velheppnaða heimsókn til Ragnars Steinarssonar tannlæknis. Eftir að hafa trassað að heimsækja tannlækninn í u.þ.b. fjögur ár mátti búast við míní-Kárahnjúkaprójekti í báðum gómum og kostnaði sem slegið hefði alla drauma um kjötmáltíðir fram að jólum kalda niður. En, nei! Engar holur. Karíus og Baktus þrífast ekki í mínu munnholi enda drekk ég bara bjór og kaffi, en sárasjaldan gos.
Ekki er þó þar með sagt að heimsóknin hafi verið með öllu átakalaus. Skrapa þurfti burtu tannstein í sekkjavís. Ragnar spurði hvort hann mætti ekki hirða steininn – hann er víst að fara að búa sér til sólpall…
En eftir skrap, nudd og blóðspýtingar er tannstellið orðið sallafínt og skjannahvítt, þótt eitthvað segi mér að hálfsmánaðarskammtur af svörtu kaffi muni færa þær aftur í sama horfið.
* * *
Það er ekki bara postulínið uppí Stefáni sem er orðið hvítt. Gangurinn á Mánagötunni var málaður í gær. Þetta er allt annað líf, verst samt hvað aðrir og ómálaðir hlutar íbúðarinnar eru orðnir áberandi núna… – Stefni að því að negla mótmælaskiltið hennar Steinunnar upp á vegginn. Þá verðum við ennþá fljótari að grípa til þess ef mótmæla þarf með stuttum fyrirvara.