Jæja, þá er þetta búið hjá Össuri. Hafi einhver efast um að honum yrði slátrað á næsta landsfundi tekur Fréttablaðið af allan vafa með því að birta viðtal við Margréti Frímannsdóttur um að hann muni sitja áfram.
Allir vita að þegar einhver fer í viðtal og segir: „Ég er ekki á leiðinni í framboð/landsliðið/nýtt starf, þótt fullt af fólk hvetji mig til þess“ – merkir það í raun: „mig dauðlangar. Hvers vegna stingur enginn upp á mér?“
Viðtalið: „Er hundleiður á kjaftasögunum“ – merkir í raun: „Hey, eru allir búnir að gleyma mér? HALLÓ – sýna mér athygli!“
Fréttin: „Hr. X nýtur ótvíræðs stuðnings. Enginn vill bola honum í burt“ – merkir: „rýtingarnir eru á leiðinni úr brýningu…“
Aumingja Össur!
* * *
Við Steinunn tróðum okkur undir alltof litla regnhlíf í gær og fórum á Dillon. Þar voru ansi margir Gay pride-göngugarpar sem höfðu blotnað of mikið að utan um daginn og að innan upp frá því. Andrea er samt langbesti plötusnúðurinn á nokkrum bar í bænum.
* * *
Úgg. Fótboltaleikur á Akranesi á eftir. Útlit fyrir úrhellisrigningu og völlurinn örugglega þungur og blautur. Mikið væri gaman að ná jafntefli, en ekki er ég tiltakanlega bjartsýnn.
Helv. Grindvíkingarnir virðast meira að segja ætla að bregðast mér í Eyjum. Þessi fallbarátta lítur verr út með hverjum deginum.
* * *
Á gær hjálpaði Óli mér að semja lögfræðilegt hótunarbréf. Það er nánast skuggalegt hvað drengnum er náttúrulegt að semja svona texta…