Stjörnublaðamaðurinn í heilsuræktarátakinu tekur í síðustu færslu sinni vel í þá hugmynd mína að hann gerist stjörnuspárhöfundur Fréttablaðsins. Hann setur sig meira að segja í gírinn og hristir fram eina stórsmellna spá. (Reyndar óþarflega langa ef haft er í huga að spárnar þurfa helst að vera tólf á degi hverjum.)
Að þessu tilefni skulum við rifja upp klassíkera úr stjörnuspá Tímans:
Sporðdrekinn – 24.okt.-24.nóv.
Þú reykir sígarettu í hádeginu en leysir um leið óvart vind. Það kallast taðreyking.
Ljónið – 23.júlí-22.ágúst
Vinkona þín er ekki öll þar sem hún er séð. Hún er miklu feitari.
Vogin – 24.sept.-23.okt.
Þú verður frekar misheppnaður í dag ræfillinn og ættir að hafa sem hljóðast um þig. Þú gerir strax mistök í morgunsárið þegar þú tannburstar þig með rakvélinni. Annars fer það þér ágætlega.
Meyjan – 23. ágúst-23.sept.
Nú er lag. Á útvarpinu.
Fiskarnir – 19.febr.-20.mars
Þú ferð með tauið þitt í þvottahús í dag en verður argur yfir viðtökunum. Þú færð það óþvegið.
Fiskarnir – 19.febr.-20.mars
Dagurinn er heppilegur fyrir barneignir. Sterkurleikur að fæða eitt upp úr kvöldmat.
Nautið – 20.apríl-20.maí
Þú ert með sjálfan þig á heilanum. Skárra en æxli.
Tvíburarnir- 21maí-21.júní
Þú ferð niður á Mokka í dag og rífur hárið af nokkrum skáldum sem eðlilega verða nokkuð fúl og hugsi yfir. Athæfi þitt skýrist í kvöld þegar þú blæst til bókarheita og leikur Laxness-bókina „Af skáldum“.
– Skyldi Tóti bensínkall – afsakið… öryggisvörður (heita þeir það ekki núna?) geta leikið þetta eftir?