Jæja, hin raunverulegu mánaðarmót eru komin – nýtt VISA-tímabil gengið í garð. Á tilefni af þessu ákvað heimilið að Mánagötu 24 að koma hjólum atvinnulífsins af stað með því að stofna til einkaneyslu fremur en að grynnka á skuldum heimilanna. Geir Haarde hlýtur að vera brjálaður út í mig núna.
En í hvað eyddi besti og frægasti bloggarinn peningunum sem hr. Visa gaf honum í gær? (Mátt ekki segja svart, ekki hvítt, o.s.frv…)
i) Rúmlega 13.000 kall í Bónus. Af því fór drjúgur hluti í dósa- og pakkavöru, en einnig í þvottaduft, rakvélablöð, nýlenduvörur og meira að segja kjötmeti (þvert á betri vitund sem segir mér að ódýrt kjöt úr Bónus sé ómeti. Þá keypti ég mér sva…, öhh, dökka sokka. Þeir kostuðu skít og kanil og munu líklega verða ónýtir eftir 2-3 þvotta.
ii) Þrjár teiknimyndasögur hjá Braga. (Alltaf verið að fylla betur upp í safnið.) Þetta voru: Lukku-Lákabókin „Svala Sjana“; Tinna-bókin „Á myrkum mánafjöllum“ og Steina sterka-bókin „Steini sterki og Grímhildur góða“. Þar með á ég allar Steina sterka-bækurnar sem út hafa komið á íslensku. Ekki bestu teiknimyndasögurnar en samt bærilegar.
iii) Tveir stórir bjórar á Sportbarnum. Þangað mætti ég til að fylgjast með QPR tapa fyrir Brighton (sem þjónaði vel mínum hagsmunum) og Þrótt vinna Fylki (sem gekk þvert á mína hagsmuni). Fyrir vikið er staða Framara orðin býsna svört… Rats!