Loksins bjargálna!

Jæja, hin raunverulegu mánaðarmót eru komin – nýtt VISA-tí­mabil gengið í­ garð. Á tilefni af þessu ákvað heimilið að Mánagötu 24 að koma hjólum atvinnulí­fsins af stað með því­ að stofna til einkaneyslu fremur en að grynnka á skuldum heimilanna. Geir Haarde hlýtur að vera brjálaður út í­ mig núna.

En í­ hvað eyddi besti og frægasti bloggarinn peningunum sem hr. Visa gaf honum í­ gær? (Mátt ekki segja svart, ekki hví­tt, o.s.frv…)

i) Rúmlega 13.000 kall í­ Bónus. Af því­ fór drjúgur hluti í­ dósa- og pakkavöru, en einnig í­ þvottaduft, rakvélablöð, nýlenduvörur og meira að segja kjötmeti (þvert á betri vitund sem segir mér að ódýrt kjöt úr Bónus sé ómeti. Þá keypti ég mér sva…, öhh, dökka sokka. Þeir kostuðu skí­t og kanil og munu lí­klega verða ónýtir eftir 2-3 þvotta.

ii) Þrjár teiknimyndasögur hjá Braga. (Alltaf verið að fylla betur upp í­ safnið.) Þetta voru: Lukku-Lákabókin „Svala Sjana“; Tinna-bókin „Á myrkum mánafjöllum“ og Steina sterka-bókin „Steini sterki og Grí­mhildur góða“. Þar með á ég allar Steina sterka-bækurnar sem út hafa komið á í­slensku. Ekki bestu teiknimyndasögurnar en samt bærilegar.

iii) Tveir stórir bjórar á Sportbarnum. Þangað mætti ég til að fylgjast með QPR tapa fyrir Brighton (sem þjónaði vel mí­num hagsmunum) og Þrótt vinna Fylki (sem gekk þvert á mí­na hagsmuni). Fyrir vikið er staða Framara orðin býsna svört… Rats!