Þökk sé góðum ábendingum í athugasemdakerfinu mínu er nú farin að komast nokkuð heilleg mynd á teiknimyndasagnaflóruna á sínum tíma.
Annars rifjaðist upp fyrir mér að í DV var líka einnar-myndar-saga sem hét „Kærleiksheimilið“, en hún fjallaði um bandaríska millistéttarfjölskyldu og var einkum merkileg vegna þess að myndaramminn var hringur en ekki ferhyrningur.
Myndasögur Kjarnós í Þjóðviljanum hétu „Svínharður smásál“ og voru frábærar. Einu sinni birti Þjóðviljinn íslenska myndasögu um þrjá gamlingja sem struku af elliheimili.
Boggi í Degi/Tímanum var ágætur, en sú saga er miklu yngri en annað það efni sem hér hefur verið rifjað upp.
En hvað með Alþýðublaðið? Nú veit ég að a.m.k. einn fyrrverandi Alþýðublaðsritstjóri er meðal fastra lesenda þessarar síðu – var aldrei skrípó í Alþýðublaðinu???
Og svo var það náttúrlega Vikan. Þar voru góðar teiknimyndir:
Skuggi, sem Tíma-Tóti fjallar um, var í Vikunni. Þar voru líka Knold og Tot (sem hétu Binni og Pinni). Gott ef „Ljóska“ úr Mogganum var ekki líka í Vikunni en hét þá „Dagur“? Man það ekki nægilega vel. Svo voru örugglega 1-2 seríur í viðbót…