Teiknimyndabloggið hér að neðan hefur vakið viðbrögð og umræður á spjallsvæðinu. Kalli og Kobbi á Þjóðviljanum og Hvell-Geiri á Tímanum hafa verið rifjaðir upp. Hvaða sögur aðrar voru í þessum blöðum?
Þjóðviljinn hafði Foldu, íþróttaskrípóið Garp, Kærleiksbirnina og sænska sögu um einstæða móður með tvo unglinga. Hvað var í Tímanum annað en Hvell-Geiri? Las einhver Dag? Voru einhverjar sögur þar af viti?
DV var líka með einnar-myndar-skrípó, þar á meðal „Vesalings Emmu“ sem fjallaði um eldri hjón. Ömmulega konu og önugan eiginmann hennar, auk þess sem börn og barnabörn komu við sögu. Svo var önnur saga um blondínu sem oftar en ekki var nýkomin úr baði með handklæði vafið um sig miðja. Minnir að hún hafi heitið Bella og verið mjög karlrembuleg í alla staði.
Hvað var meira? Jú, Myndasögur Moggans voru stórkostlegt blað og óskiljanlegt að Mogginn sé hættur með stóreflis teiknimyndasögukálf. Þar voru Spæderman, Hulk og Súperman (þó ekki allar í einu). Ziggy voru heimspekilegar sögur sem oftar en ekki gengu út á að Ziggy sat ásamt hundinum sínum og horfði upp í stjörnubjartan himininn og varpaði fram einhverri tilvistarspekilegri pælingu.
Munaðarleysinginn Anna (Annie) voru sögur dauðans af rauðhærðri stelpu og hundinum hennar og viðureign þeirra við vona menn. Helvítið hann Högni hrekkvísi var með hundfúlar sögur, sem enduðu á myndaramma sem átti að rekja hetjusögur af köttum lesenda. „Köturinn hennar Binnu (9 ára) er mikill grallari og finnst gaman að horfa á uppþvottavélina að störfum!“
Hermann var líka með stórar sögur í Myndasögum Moggans og svo var sería um konu sem var endalaust í einhverju karlastússi og útistöðum við móður sína (frekar fúlt).
Á gamla daga birtust ístríks-sögur í Mogganum. Þannig mun bókin „ístríkur og gullna sigðin“ hafa birst í heild sinni í þessum kálfi á einum vetri, en það er einmitt ein þeirra fáu ístríkssagna sem ekki hafa komið út á bók á íslensku. (Sem er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig…)
Vííí… nostalgía á föstudagsmorgni…