Óska konunni minni til hamingju með daginn. Nei, Steinunn á ekki afmæli. Það er ekki fyrr en á fimmtudaginn. Tilefnið er annað og ekki síður gleðilegt.
Á dag fékk Steinunn nefnilega sína fyrstu skammargrein í Mogganum. Tilefnið var grein sem hún skrifaði á vef Ungra vinstri grænna í gær, mánudag, undir yfirskriftinni: „Fri hash – Fyr Fogh!“, sem vísar í eitt af slagorðum stuðningsmanna Kristjaníu gegn dönsku ríkisstjórninni.
Þetta var meira en Staksteinahöfundur Moggans þoldi og afleiðingin var eftirfarandi pistill:
Kristjanía og umburðarlyndið
Steinunn Þóra írnadóttir skrifar á vef Ungra vinstri grænna, uvg.vg, og fjallar um deilur um framtíð „fríríkisins“ Kristjaníu í Kaupmannahöfn.
Stuðningsmenn Kristjaníu segja hana dásamlega vin í miðri stórborginni, þar sem anarkismi og umburðarlyndi ríkja. Hún veiti mannsandanum mikilvægt frelsi til að blómstra og sé börnum öruggt umhverfi,“ skrifar Steinunn Þóra. „Það er nákvæmlega þessi fjölbreytileiki og þetta frjálslyndi sem er eitur í beinum þeirra sem loka vilja fríríkinu. Að þeirra mati er sá skortur á reglufestu, sem öðru fremur einkennir Kristjaníu, höfuðmeinsemd sem ber að uppræta. Höfnun íbúanna á ýmsum þáttum borgaralegs gildismats ýtir undir fordóma og sögur af hvers kyns ólifnaði og glæpastarfsemi. Og alkunn hassnotkun íbúanna eykur enn á vandlætinguna.“
ífram heldur Steinunn: „Deilan um framtíð Kristjaníu snýst að verulegu leyti um það að hvaða marki samfélagið umberi eða jafnvel viðurkenni notkun kannabisefna. Um langt skeið hefur slík neysla verið litin talsvert öðrum augum í Danmörku en til að mynda hér á landi. Óhætt er að fullyrða að þorri fólks hafi litið hassneyslu öðrum augum en notkun harðari fíkniefna. Aðförin að Kristjaníu er því öðrum þræði tilraun til að draga úr þessu umburðarlyndi.“
Loks segir Steinunn Þóra að þau sjónarmið sem takist á í deilunum um framtíð fríríkisins séu viðameiri og hafi skírskotun til miklu fleiri en íbúanna sjálfra, þ.á m. Íslendinga. „Á þessu máli takast á sjónarmið þeirra sem trúa á mátt fjölbreytileikans og samfélag sem þolað getur ólíkan lífsstíl íbúanna annars vegar, en hins vegar þeirra sem kalla á straumlínulögun samfélagsins á grundvelli millistéttargilda. Krafa dönsku ríkisstjórnarinnar er einföld, að allir séu steyptir í sama mót. Það er því full ástæða fyrir frjálslynt fólk á Íslandi að fylgjast grannt með framvindu mála í Kristjaníu næstu mánuðina.“
Þetta eru athyglisverð sjónarmið, en hvað þýða þau fyrir íslenzkan veruleika? Segjum sem svo að hópur fólks legði undir sig yfirgefin fiskvinnsluhús við Reykjavíkurhöfn og stofnaði samfélag „anarkisma og umburðarlyndis“, þar sem hassreykingar væru m.a. hluti af daglegu lífi. Væri það að mati UVG bara leiðinda „straumlínulögun á grundvelli millistéttargilda“ ef lögreglan upprætti þetta samfélag?
Hahaha… Mogginn eipar yfir anarkisma Steinunnar og Ungra vinstri grænna!
Það er stór stund í lífi hvers róttæklings að vera skammaður af Mogganum í fyrsta sinn. Til hamingju Steinunn!