Á gær uppgötvaði ég að ég væri með lausa skrúfu… í gleraugunum mínum. Fór þess vegna í Linsuna í Aðalstræti og lét laga þau. Það gekk skjótt og örugglega. Ég versla alltaf við Linsuna enda konan sem rekur þá verslun mikill snillingur og þjónustan góð. Hvers vegna er ég að segja þetta? Tja, mig langaði bara til að mæla með Linsunni.
Deiglan birtir í dag pistil um að eldhúsið í nýju höfuðstöðvum Orkuveitunnar sé beint fyrir neðan innganginn og að þess vegna fyllist þar allt af matarlykt. Þetta er væntanlega stórskandall og enn ein sönnun þess að vinstrimenn eigi ekki að stjórna borginni að mati Deiglumanna. Hið rétta í málinu er að matsalurinn er ekki fjarri innganginum (ekki eldhúsið). Maturinn hans Magga kokks er góður, samt borða ég mjög sjaldan í mötuneytinu. Það er alveg óþarfi að koma maganum og nýrunum upp á að lifa á öðru en svörtu kaffi á daginn.
Luton féll út úr deildarbikarnum á þriðjudagskvöldið. Tapaði í vítakeppni gegn Charlton á útivelli eftir 4-4 jafntefli. Sannarlega frækileg frammistaða.
Fyrrverandi leigjandinn minn er enn ekki búinn að rýma íbúðina. Hún er nú 90% tóm, en t.d. megnið af fötunum hans er enn í svefnherberginu og slatti af leirtaui í eldhúsinu. Er alvarlega að hugsa um að gefa Hjálpræðishernum allt draslið ef hann verður ekki búinn að fjarlægja þetta á morgun. – Vantar einhvern hnífapör og diska?
Fyrr í dag komst ég að því að yfirmaður minn les ekki minnisblöðin sem ég set saman fyrir hann. Það er óstuð.
Hearts unnu Evrópuleikinn sinn í gær. Það var fyrsti Evrópuleikur þeirra í þrjú ár, en ég sá einmitt þann síðasta – gegn Stuttgart – tveimur dögum eftir að ég kom til Edinborgar. Craig Levein er hetja og snillingur eins og áður hefur komið fram.
Klóakmálin á Mánagötunni eru enn í skralli. Aumingja Sonja í kjallaranum býr við klóakstybbu og rottugang. Vonandi styttist þó í að við fáum lausn okkar mála.
Jamm.