Besti og frægasti bloggarinn man nánast aldrei drauma, eins og fram hefur komið á þessum vettvangi. Þá sjaldan hann rámar í draumfarir sínar eru þeir óskiljanlegt þrugl, með örfáum skemmtilegum undantekningum.
Annað sem er merkilegt við drauma besta bloggarans er sú staðreynd að hann dreymir aldrei konuna sína, ættingja hennar eða vini. – Eða þannig var það til skamms tíma.
Fyrir tveimur nóttum slapp ítalíufarinn Bryndís inn í draumaland Stefáns og var þar meira að segja í burðarhlutverki í draumi sem gerðist á skringilegu gistihúsi. U.þ.b. tíu manns sem ég þekki alla af hinum og þessum vettvangi gistu með okkur í þessu hrörlega hóteli. Ég vaknaði áður en blóðbaðið byrjaði. – Já, auðvitað hefði þetta endað með blóðbaði. Hverjum dettur í hug að kynna til sögunnar tíu manns á afskekktu gistihúsi ef ekki væri um að ræða Agötu Christie-glæpasögu. Ég er meira að segja nokkuð viss um að Björgvin G. Sigurðsson var morðinginn – eða hefði orðið fyrsta fórnarlambið.
Þegar ég vaknaði í gærmorgun fannst mér þetta stórmerkilegt – að Bryndís væri komin á blað en Steinunn ekki. Bjóst jafnvel við að hún yrði öfundsjúk.
Nema hvað, í nótt rættist úr þessu. Steinunn fékk sérkennilegt aukahlutverk í fullkomlega fáránlegum draumi sem gekk út á illdeilur mínar við kaffihúsaeiganda sem taldi mig hafa hlunnfarið sig í viðskiptum. Ég var mjög sár yfir að vera hafður fyrir rangri sök og svaraði fullum hálsi (en gætti mín þó á að fara ekki offari, því vissulega hafði ég prettað manninn – bara ekki á þann hátt sem hann hélt fram.)
Eftir stendur að Steinunn og Bryndís eru báðar orðnar draumadísir, sem hlýtur að teljast gott mál. Ætli það sé til íslenskt orð yfir að dreyma einhvern í fyrsta skipti?
* * *
Luton leikur seinni leikinn við Thurrock í kvöld í fyrstu umferð FA-bikarkeppninnar. Leikurinn er ekki sýndur á Sky, heldur Canvey Island – Southend, talandi um að kunna ekki að forgangsraða!
Við verðum að vinna í kvöld og það helst nokkuð sannfærandi. Úrslitin í fyrri leiknum voru hræðilega niðurlægjandi. 1-1 gegn utandeildarklúbbi, hverra besti maður sér sér farborða með því að lesa upp bingótölur! (ín þess að ég sé á nokkurn hátt að gera lítið úr merku starfi bingóaflesara…)
* * *
Húsvörðurinn skemmtilegi var ekki með í Scrubs-þætti gærkvöldsins, enda náði þátturinn sér aldrei á strik. Svona má ekki gerast!
* * *
Ekki langar mig í margar bækur um þessi jól. Reyndar þarf ég að eignast Vetrarundrin – Múmínálfaævintýrið sem verið er að endurútgefa. Þá hef ég alltaf gaman af Einari Kárasyni. Annað sýnist mér að megi missa sín.
Jamm.