Eftir vinnu göngum við Palli í að búa til barmmerki fyrir Pönkarann. Siggi pönk er eftirlætis kúnninn okkar Palla, enda kemur ekki til greina að leyfa honum að borga neitt. (Enda fráleitt að ætla sér að rukka anarkista – ekki satt?)
Þegar við gerum barmmerki fyrir Pönkarann getum við gengið út frá því að þau verða skemmtileg, beinskeytt og það sem meira er – þeim verður dreift og þau notuð. Það er mikils virði. Nógu margir vilja fá okkur til að gera ljót og leiðinleg merki sem grotna loks niður í plastpokum úti í bæ. – Pönkarinn er flottastur.
* * *
Að barmmerkjaframleiðslu lokinni ætla ég á sportbarinn í Glæsibæ að horfa á fótbolta. Fimm leikir í forkeppni EM, þar af í það minnsta þrír í beinni útsendingu frá 18:30-21:30. Allt hreinir úrslitaleikir.
Holland – Skotland, þetta þarf varla að útskýra frekar. Skotar eru langskemmtilegastir. Ég er nánast feginn að þeir komust áfram á kostnað Íslands.
Wales – Rússland, auðvitað Wales – eða Kymría eins og Raggi Kristins vill kalla þetta ágæta land. Kymrar eiga fá verulega flinka knattspyrnumenn, en þeir berjast eins og ljón. Svo yrði Llion Owen vinur minn líka svo glaður ef hans menn kæmust til Portúgal.
Slóvenía – Króatía, hér hlýt ég að halda með Slóvenum vegna þess að þeir koma frá litlu og fámennu landi, auk þess sem ég hef kynnst miklu fleiri skemmtilegum Slóvenum en Króötum.
Noregur – Spánn, það er ekki hægt að halda með Noregi. Það er leiðinlegasta landslið í heimi.
Tyrkland – Lettland, auðvitað væri það heillandi að sjá dvergþjóð í fótboltanum á borð við Letta fara í úrslitakeppnina, en Tyrkir eru miklu skemmtilegra lið.
* * *
Til að fullkomna fótboltanördaskap minn er ég farinn að fylgjast með Asíu-forkeppni HM í Þýskalandi 2006, en hún hefst einmitt í þessari viku. Á undankeppni um sæti í riðlakeppninni leika:
Túrkmenistan – Afganistan
Pakistan – Kyrgistan
Laos – Sri Lanka
Mongólía – Maldíves-eyjar
Guam – Nepal
Taiwan – Macao
Bangladesh – Tadjekistan
Um þetta mætti skrifa lærða ritgerð – kannski ég geri það bara við tækifæri…
* * *
Og talandi um fótbolta. Luton vann seinni leikinn gegn Thurrock; 3:1. Forbes með þrennu. Ekki slæmt.
Næstu fjórir leikir verða áhugaverðir: Sheffield Wed. úti & Chesterfield heima í deildinni; Rochdale úti í 2. umferð FA-bikarkeppninnar & Southend úti í sendibílabikarkeppni Þrastar.
Ójá.