Andúð mín á nýjungum og „tækniframförum“ fer stigvaxandi.
Frá því að ég hóf störf hjá Orkuveitunni, þá raunar Rafmagnsveitunni, hafa tæknimenn fyrirtækisins reglulega troðið inn á mig nýjum græjum og dóti sem ætlað er að gera starf mitt þægilegra og markvissara. Á hvert skipti hafa þær tilraunir endað með hörmungum.
Fyrir mörgum mánuðum var mér tilkynnt að til stæði að skipta um símkerfi á Minjasafninu. Þar með myndi safnið komast inn á sama símkerfi og Orkuveitan öll, við gætum sent símtöl milli deilda og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta nýja símkerfi er tölvutengt og tengist netinu á einhvern hátt, annars kann ég ekki að útskýra þennan mekanisma frekar.
Tilraunir mínar til að benda á að símkerfið sem við höfum núna virki bara ágætlega skiluðu engum árangri. Ég var talinn hálfgerður vitleysingur að vilja ekki fá nýja og frábæra símkerfið og svo fór að lokum að hersveit iðnaðarmanna var send á staðinn til að þræða einhverja kapla og bora í gegnum gólf og veggi.
Um leið og tæknimennirnir mættu á svæðið spurði ég þá hvort það væri réttur skilningur að eftir breytinguna yrði það ekki bara netsambandið sem myndi liggja niðri heilu og hálfu dagana, heldur símkerfið líka? Þetta þótti þeim mjög fyndinn brandari hjá mér og viðurkenndu fúslega að ef svo óliklega vildi til að netið færi út, þá yrðu líklega truflanir á símkerfinu líka.
Nema hvað. Þessa viku sem nýja fína símkerfið hefur verið uppi, hefur það slegið út netinu 3-4 sinnum. Á hvert sinn hefur Minjasafnið verið netlaust (sem er ekki gott þar sem við starfsmenn erum hvattir til að vista öll okkar gögn á hýsil fyrirtækisins en vera ekki með þau á einkasvæði) jafnframt höfum við verið símasambandslausir allan þann tíma sem tekið hefur viðgerðarmann að koma sér inn í Elliðaárdal. 1-2 á dag hringir síminn og ég hrópa „halló – halló“ í tólið á meðan einhverjir útlendingar babla sín á milli í fjarska. Þetta gerðist aldrei í gamla kerfinu.
Allar bölsýnisspár mínar varðandi þetta nýja símakerfi hana reynst réttar. Tækninýjungar eru uppfinningar djöfulsins. Framfarir áttu kannski rétt á sér einu sinni, en þær héldu of lengi áfram…
* * *
Hearts vann Hibs 2:0 í Edinborgarslagnum. Fagna því allir góðir menn.
* * *
DV er svo hrifið af svörum Dagnýjar Jónsdóttur við spurningu um styttingu framhaldsskólans að blaðið ákveður að birta það á síðu átta og svo aftur á síðu tíu. – Klént.
* * *
Börnin úr Grandaskóla sem komu í Rafheima í morgun voru fín. Á hópum voru tveir efnilegir spurninganirðir sem vissu greinilega allt um Benjamín Franklín, Edison og Einstein. Gaman að þessu.