Peningamál og skriffinnska eru leiðinlegasta stúss í heimi.
Við Steinunn höfum nú ákveðið að selja íbúðina á Hringbrautinni. Ekki á það sem upp var sett, en svo sem heldur ekki á minna en vonir stóðu til að fá í upphafi.
Ef þetta rennur í gegn mun útborgunin þurrka upp yfirdráttinn sem varð að mestu til í kringum framkvæmdirnar á Mánagötunni í haust. Næsta skref verður svo að:
i) Kaupa Mánagötuna af tengdapabba
ii) Skipta út baðherberginu
iii) Gera e-ð í rafmagnsmálum hússins
Þetta þýðir óendanlega mikla pappírsvinnu, þ.á.m. kaupmálagerð. Þá þarf að jagast í iðnaðarmönnum, sem er ömurlega leiðinlegt.
Það verða þó ýmsir kostir við að klára dæmið. Þeir helstir að maður gæti loksins náð einhverri yfirsýn yfir fjármálin. Það væri þá bara greitt af lánum af einni íbúð – ég fengi aftur vaxtabætur (sem ríkisstjórnin er reyndar búin að skera við trog) og það þyrfti ekki að pæla meira í söluharki.