Það vantaði ekki dramatíkina í GB í gær. Fyrir kvöldið voru fjögur lið komin áfram: MK, Vesturland, Versló og Garðabær. Stigahæsta tapliðið var MH með 27 stig – og vegna góðs gengis þeirra í fyrri umferðinni var ljóst að hvert hinna liðanna sem væri þyrfti stiginu meira til að komast áfram af þeim kvóta.
Á fyrstu keppni unnu Hraðbrautarmenn auðveldan sigur á Húsvíkingum, 22:10. Ekki fannst mér nú Hraðbrautin hafa styrkt sig milli umferða, en sigurinn var sanngjarn og ljóst að fjórðungsúrslitakeppni þeirra og Garðbæinga verður jöfn og spennandi. Þá er Hraðbrautin með eitt glaðlyndasta liðið í keppninni og þessi fyrsta viðureign kvöldsins var á köflum farin að snúast upp í tómt grín og vitleysu.
MR og Flensborg kepptu þessu næst. Hafnfirðingar mættu allir í Luton-treyjum og þeim stórglæsilegum. MR kláraði með sín 35 stig. Alveg er það stórskrítið með MR í útvarpinu. Liðið fær yfirleitt fullt af stigum, en flestir upplifa keppnirnar þeirra sem svo að þeir hafi verið slappir eða ekki í stuði – ætli skýringin sé ekki sú að a.m.k. þetta MR-lið er pollrólegt á keppnum og virkar þess vegna dauflegt.
Flensborgarar voru á hinn bóginn óheppnir. Þeir luku keppni með 25 stig eftir fínan endasprett. Þrjú stig vantaði upp á að fella MH-inga úr keppni, stig sem þeir hefðu hæglega átt að geta fengið í hraðaspurningunum sem þeir luku með bara 16 stig, sem er undir pari fyrir Hafnfirðinga. Þeir voru hnuggnir í lok keppni og mega vera það, enda vafalítið eitt af átta bestu liðum keppninnar í ár.
Þriðja og síðasta keppnin var milli Borgarholts og Egilsstaða. Þar vantaði ekki hamaganginn. Borghyltingar héldu sínu striki, enda með fantagott lið og luku keppni með 34 stig. Gaman verður að sjá þá takast á við MK í fjórðu og síðustu sjónvarpskeppni fjórðungsúrslitanna.
Egilsstaðabúar mættu líka vel stemmdir og mun betri en í fyrri umferðinni þar sem ME felldi MA úr keppni. Tæpara gat það heldur ekki orðið, 27 stig fengu Egilsstaðir, jafn mikið og MH – en sem fyrr segir hefði ME þurft stiginu meira. Það hlýtur að vera hræðilegt að falla úr keppni á aðeins einu stigi, einkum þar sem í svona keppni er alltaf hægt að hártoga og reikna sig upp í að hér hefði mátt gefa stiginu meira eða minna.
En svona fór þetta og Egilsstaðir misstu sem sagt naumlega af keppni við MR í sjónvarpinu. MH-ingar verða þeirrar sælu aðnjótandi, í keppni sem verður örugglega mögnuð. Versló og Akranes mætast sömuleiðis.
Ég er alltof meir fyrir þetta djobb. Eftir hverja keppni fer ég að kenna í brjóst um tapliðin. Það þýðir þó ekki að hugsa endalaust um það, næstu verkefni eru mörg og brýn. Má þar nefna:
i) Fá Ernu í mat í kvöld
ii) Búa til barmmerki fyrir vinstri græna
iii) Fara að huga að Dagfaramálum
iv) Semja sjónvarpskeppni f. GB
v) Sinna milljón verkefnum í vinnunni
Jamm.