Það stefnir í að þessa dags verði minnst sem matar-miðvikudagsins mikla. Byrjaði daginn á að hakka í mig afganga frá gærkvöldinu í morgunmat. Þetta var kannski harðneskjulegt gagnvart vinnufélögum mínum, því um var að ræða pasta með vænum slurki af hvítlauk.
Hádegisverðurinn var líka rausnarlegur. Þurfti að hitta nafnana Kolbein Proppé og Bjarnason á fundi. Héldum í mötuneyti OR. Þar var silungur og hann helvíti góður.
Á kvöld liggur leiðin á Þrjá frakka. Þar mun vera einn ítalskur meistarakokkur sem býður upp á verðlaunarétti í löngum röðum. Namm, namm.
* * *
Dagbjört, systir Jóhönnu, kom í heimsókn í gærkvöld. Hún var að spyrja út í atriði varðandi menntaskólasögufyrirlestur sinn um hermálið. Sverrir var í heimsókn og við létum gamminn geysa í einn og hálfan tíma. Þar sem fyrirlesturinn átti að flytjast í dag er ég smeykur um að við höfum drekkt henni í upplýsingum. – En alltaf skulu menntskælingar vera sjálfum sér líkir og mæta á síðustu stundu…
* * *
Asíuhluti forkepni HM hófst í dag. Um asíska boltann hefur áður verið bloggað og full ástæða til að halda því áfram.
Svo virðist sem úrslit þessara fyrstu leikja verði leiðinlega fyrirsjáanleg.
* Kínverjar mörðu sigur á Kuwait.
* Japan skoraði sigurmark í uppbótartíma gegn Óman.
* Suður-Kórea vann Líbanon.
* írakar náðu jafntefli á útivelli gegn Úzbekum.
* Tajikistan vann Kyrgistan úti.
* Víetnam skellti Maldíves-eyjum.
* Indland vann Singapúr (sem ég fagna fyrir hönd Raj vinar míns og höfuðsnillings.)
* Norður-Kórea náði jafntefli gegn Jemen á útivelli.
* Jórdanía kjöldró Laos 5:0.
* Hong Kong sigraði Malasíu úti.
* Túrkmenar unnu Sri Lanka.
Önnur úrslit ekki komin á þessari stundu. Leikir í Austurlöndum-nær standa enn yfir eða eru ekki hafnir.
Meira síðar…