Besti og frægasti bloggarinn er alvarlega að íhuga að snúa bakinu við safnvörslu, sagnfræði og spurninganördisma og gerast artý gjörningalistamaður.
Þetta er ekki vegna hinnar alræmdu miðaldrakrísu sem skellur á karlmönnum þegar 29 ára afmælið nálgast, heldur fékk ég opinberun í gær. Skyndilega gerði ég mér í hugarlund frábæran gjörning, sem væri í senn listrænn, með gáfulegar vísanir og vænan skammt af aulahúmor – eins og góðir gjörningar eiga að vera. Görningurinn nefnist:
Sigur tölfræðinnar
10 menn í apabúningi sitja á sviði (gæti t.d. verið í Tjarnarsal Ráðhússins.) Hver um sig hefur tölvu til umráða og tölvuskjánum er varpað upp á tjöld fyrir almenning að lesa. – Þetta er augljóslega staðfærð útgáfa af gömlu hugmyndinni um apa og ritvélar.
Aparnir hegða sér eins og öpum sæmir. Hoppa upp og niður, berja sér á brjóst og skrifa tóma tokkarísku á lyklaborðin – utan einn. Hann slær samviskusamlega inn fínan prósa, t.d. ljóð eftir stórskáld þjóðarinnar. Að nokkrum tíma liðnum rennur æði á viðkomandi apa og hann fer að hegða sér eins og allir hinir, en jafnskjótt umturnast einhver annar api og fer að skrifa lýtalaust.
Með gjörningnum yrði sýnt fram á fullnaðarsigur tölfræðinnar yfir mannsandanum.
Snjallt, ekki satt?