Á ræðukeppnunum í menntó þótti töff að splæsa saman löngum setningum sem stuðluðu. Þannig var ekki sagt að einhver væri hás, heldur að „röddin væri rist rúnum reykinga og rutls“. – Þetta þótti sniðugt.
Ég er sem sagt ennþá hás. Og þar sem eitt stykki útvarpsviðtal og því næst sjónvarpsupptaka nálgast óðfluga, er ég farinn að hafa af þessu nokkrar áhyggjur.
Stelpan í apótekinu seldi mér einhverja fjallagrasamixtúru. Hefði betur keypt Jagermaster. Betur tókst þó til með Strepsils-töflurnar sem ég hakka í mig.
Til að bæta gráu oná svart ákvað ég að lepja te í staðinn fyrir kaffi í dag. Það sökkar.
Ekki skil ég hvernig ég hélt út dvölina í Edinborg þar sem ég þambaði te en fékk mér helst bara kaffi úr litlu kaffiskúrunum sem finna mátti á hverju götuhorni. Hef þá kenningu að ástæða þess að Kínverjar lögðu ekki undir sig heiminn, heldur Evrópubúar sé einmitt þessi. Kínverjarnir drukku te en Evrópumenn lærðu snemma á kaffi og gátu komið einhverju í verk.
Urr.
* * *
Held erindi í málstofu um tæknisögu á ráðstefnu í Háskólanum kl. 13 á morgun. Það verður stuð.
* * *
Allir mæta svo í mótmælin á laugardaginn kl. 12 fyrir framan Stjórnarráðið. Helv. ríkisstjórnin verður minnt á að stríðið er ekki búið og þeim hefur ekki verið fyrirgefið.