Skattskýrslan hefur verið send á Ríkisskattstjóra. Ekki vildi tölvan þó áætla á mig álagningu. Þar var samsköttuninni um að kenna. Steinunn á nefnilega enn eftir að skila inn og fyrir vikið var ekki hægt að slumpa á hversu háan reikning ég fæ í sumar. Hann verður þó eflaust hár.
Engar verða vaxtabæturnar að þessu sinni. Húsaleigubætur ekki heldur. Svona er að detta akkúratt á milli kerfa. – Til að lenda ekki í þessu helvíti aftur á næsta ári verðum við að fara að ganga frá þessum íbúðarmálum og kaupa kofann.
Peningamál eru leiðinleg.
* * *
Síðdegis mæti ég hins vegar á undirbúningsfund fyrir Islay-ferðina miklu. Senn er komið að því að panta ferðir og samkomur sem slegist verður um miða á. Til dæmis þufum við að ákveða hvenær fara eigi út í eyjuna Júra. Þangað hlakka ég til að fara.
* * *
Á kvöld er svo boð hjá Skúla Sig. og Elviru, þar sem tæknisöguhópurinn frá ráðstefnunni um daginn kemur saman. Þar verður enginn hörgull á háfleygum umræðum um tæknikerfi, nauðhyggju og postmódernisma.
Einu sinni var ég á fyrirlestri hjá Skúla þar sem honum varð tíðrætt um postmódernisma. Gamall skarfur í hópi áhorfenda ætlaði að vera sniðugur og sagði fúla brandarann um Jóhann Hjálmarsson sem hefði verið póst-módernisti, þ.e. módernisti sem vann hjá póstinum…
Þetta hélt hann að myndi stinga upp í Skúla en það var öðru nær. Skúli henti brandarann á lofti og fór einmitt að ræða hugmyndir sínar út frá póstkerfum samtímans og þakkaði kærlega fyrir ábendinguna. Sá gamli varð grútspældur og reyndi að gjamma fram í að þetta hefði verið glens en ekki málefnalegt innlegg í umræðuna, en Skúli hélt sínu striki og talaði upp frá þessu jöfnum höndum um postmódernisma og póst-módernisma.
Þá hló marbendill.