Besti bloggarinn og kona hans fóru í Vesturbæjarlaugina í gær og raunar líka í fyrrakvöld. Hef þar með farið þrisvar í þessa laug á innan við viku – eftir að hafa stigið þar inn fæti svona 2-3 síðustu fjögur árin.
Einhvern veginn þekkir maður samt hvern krók og kima þarna. Merkilegt hvað maður leggur hús vel á minnið sem barn. Held til dæmis að ég rati betur um í Melaskóla en í írnagarði.
Á lauginni hefur þó orðið ein veigamikil breyting frá því að ég heimsótti hana síðast. Búið er að koma upp eimbaði og endurskipuleggja heitu pottana. íður voru pottarnir þrír. Einn grunnur og taðvolgur. Einn heitur og góður – sá klassíski í miðjunni. Og loks einn sem notaður var til að sjóða kjötsúpu úr laugargestum. Þar var alla tíð fámennt.
Nú ber svo við að pottarnir eru orðnir fjórir, en samt er eins og plássið hafi minnkað. Klassíski potturinn er ekki eins góður og í gamla daga en samt ekki þverfótað fyrir fólki. Svo er erfitt að sjá muninn á hitastiginu í þremur pottanna en sá fjórði er sjóðheitur sem fyrr – en samt líklega ekki jafn rosalega heitur og í gamla daga.
Sá þegar upp úr var komið að þessi tilhögun er til bráðabirgða. Ætlunin er að breyta Vesturbæjarlauginni úr fullorðinslaug í gríslingalaug þar sem gargandi börn gera alla geðveika eða geðveikari. – Það á sem sagt að planta vatnsrennibraut í einu horninu og setja einhverja grunna setlaug milli pottanna og laugarinnar sjálfrar. Svo kemur líka stór bygging sem eflaust verður með líkamsræktarstöð. – Hvers eigum við pottsitjandi fituhjassar að gjalda? Ætli maður endi ekki á að veðja bara á Sundhöllina með þessu áframhaldi?