Sem kunnugt er, telst fyrsti landsleikur Íslands í knattspyrnu hafa farið fram 1946. Fyrir þann tíma kepptu úrvalslið við erlendar áhafnir og jafnvel keppnislið, en sannarlega var ekki talið um eiginlega landsleiki að ræða.
Á 12. manninum, stuðningsmannasíðu færeyska landsliðsins, er birtur listi yfir landsleiki Færeyinga frá upphafi. Athyglisvert er að bera hann saman við skrár KSÁ yfir landsleikjasöguna:
Samkvæmt þeim lista léku íslendingar fyrst A-landsleik við Færeyjar árið 1972. 1959-1968 höfðu liðin mæst nokkrum sinnum, en KSÁ og Færeyingunum ber saman um að þar hafi verið um að ræða B-landslið Íslands. Það taldist því ekki fullgildur landsleikur að taka þátt í þeim leikjum. Öðru máli gildir um Færeyjaleikina eftir 1972. Þeir gefa A-landsleik, þrátt fyrir að Færeyjar væru framan af ekki fullgildur meðlimur í UEFA og FIFA. Íslendingar kusu hins vegar að líta svo á að um alvöru landsleiki væri að ræða.
En fremst á lista Færeyinganna er nokkuð sem vekur athygli. Fyrir árið 1948 telja þeir upp fimm landsleiki. Þrjá í júnímánuði 1930 á keppnisferðalagi í Hjaltlandseyjum og einn til viðbótar árið 1935 í Lærvík. Fimmti leikurinn fór fram 29. júlí 1930 í Þórshöfn… GEGN ÍslANDI!
Úrslitin voru Færeyjar 0 – Ísland 1. Mark Íslands var skorað í fyrri hálfleik.
Og þá spyr Stefán: Hefur einhver heyrt talað um þennan leik? Léku Íslendingar landsleik við Færeyjar árið 1930? Og ef svo er, hvers vegna er hann ekki talinn fyrsti landsleikurinn?
Nú kynni einhver að benda á að 1930 hafi Ísland ekki getað teflt fram löglegu landsliði, enda ekki aðili að FIFA – en á móti kemur að Færeyjar voru það ekki heldur 1972-1987, engu að síður viðurkennum við landsleiki okkar gegn þeim.
Hér kemur tvennt til greina:
i) Kannski eru Færeyingarnir eitthvað að misskilja. Kannski kom hópur unglinga frá Íslandi árið 1930 – jafnvel bara eitthvað félagslið og Færeyingarnir töldu ranglega að um landslið hefði verið að ræða.
eða
ii) Að við verðum að endurskrifa knattspyrnusöguna. Það getum við annað hvort gert með því að skrá leikinn 1930 sem fyrsta landsleik Íslands eða með því að strika út alla leiki okkar við Færeyinga fyrir 1987. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.
Jamm.