Helgin var tekin í vídeó- og sjónvarpsgláp. Kannski ekki um annað að ræða, enda stutt í utanförina miklu og Steinunn á að heita að vera að semja ritgerð.
Myndirnar í sjónvarpinu voru þunnur þrettándi. Sú af vídeóleigunni hins vegar ekki.
Tókum In the Cut, hasarmynd sem Hilmar Örn gerði tónlistina við. Ef ekki væri fyrir hvað Hilmar Örn er mikill snillingur hefðum við aldrei í lífinu látið okkur detta í hug að leigja myndina – sjoppuleg mynd framan á spólunni og klisjukennd lýsing á fjöldamorðingja-sálfræðidrama með Meg Ryan af öllum konum í aðalhlutverkinu.
Útkoman kom hins vegar á óvart. Myndin er gróf, subbuleg á köflum og með slatta af kynlífi. Reyndar öskrar það á mann meðan á henni stendur að verið sé að fylgja eftir söguþræði í skáldsögu.
Á miðri mynd stakk það mig að eitthvað skrítið væri á ferðinni. Ég greip fjarstýringuna og spólaði nokkrum sinnum fram og til baka. Kom þá í ljós mistök í klippingunni. Sama stelpan labbaði eftir sömu götunni með örstuttu millibili. Var hreykinn af sjálfum mér fyrir að reka augun í þetta. Hef aldrei áður uppgötvað án ábendingar mistök í bíómynd. (Fyrir utan atriðið í Punktur, punktur, komma, strik þar sem hljóðneminn sést efst í myndfletinum. Það telst varla með.
* * *
Fór í Kolaportið í gær. Keypti níu bækur. ítta teiknimyndasögur og eina myndabók með múmínálfunum. Keypti mér líka eina sagnfræðilega bók – um Balkanstríðin 1912-13.
Jamm.