Kvikasilfur er skrýtið efni.
Fyrr í dag helltu tveir vaskir verkamenn Orkuveitunnar slatta af kvikasilfri á gólfið á vinnustaðnum mínum. Þar varð uppi fótur og fit.
Núna veit ég að þegar kvikasilfur fer í gólfið, þá er best að ná því upp með því að kaupa brennistein og hella yfir efnið. Brennisteinninn og kvikasilfrið ganga saman og hægt er að sópa vibbanum upp með kústi.
Núna veit ég líka að brennistein kaupir maður í Lyfjaverslun Íslands, sem heitir reyndar eitthvað annað í dag vegna þess að eitthvert fíflið taldi sér trú um að það myndi ekki hækka lyfjaverð ef ríkið hætti rekstrinum. Fyrir vikið eru nú tíu bjúrókratar á fullu við að upphugsa útfærslu þannig að hægt sé að stofna Lyfjaverslunina upp á nýtt, án þess að viðurkenna að frjálshyggjuklisjurnar hafi floppað.
Ég veit líka núna að ekki er hægt að versla hjá þessari nýju Lyfjaverslun nema að maður sé starfsmaður fyrirtækis sem er í reikningi – t.d. Orkuveitunnar.
Hvað venjulegt fólk sem lendir í að missa niður kvikasilfur heima hjá sér gerir – veit ég ekki. Kannski það láti sig bara hafa það að verða lasið.
Hugmyndir mínar um afleiðingar kvikasilfursmengunar eru einkum byggðar á einni vibbalegri ljósmynd sem birtist í Efnafræðikennslubók Hafþórs Guðjónssonar sem ég lærði í Menntó. Hún var tekin eftir kvikasilfurslys í Japan.
Gerði þau mistök að tilkynna öryggisfulltrúa OR slysið. Það kalla væntanlega yfir mig viku vinnu í að fylla út skýrslur og eyðublöð.
Rats.