Besti og frægasti bloggarinn er frá náttúrunnar hendi vel búinn til þess að lifa á Íslandi. Hér er oft og iðulega skítaveður með kulda og nepju. Þar sem ég er bæði feitur og loðinn, truflar það mig lítið. Raunar finnst mér veðrið mjög passlegt stærstan hluta ársins.
Eins og Darwin-karlinn kenndi, gerir þetta mig hæfari en annað fólk til að lifa og dafna hér á klakanum. Meðan hárlausu horrenglurnar krókna í hel, leik ég við hvern minn fingur.
Abnormal aðstæður eins og í dag, fokka hins vegar upp náttúruvalinu. Gula ógeðið ætlar allt og alla að drepa – einkum okkur ísbirnina. Með þessu áframhaldi verð ég soðinn til bana og yfirburða-erfðaefnið kemst ekki í almenna dreifingu. Andskotinn!
Hér vantar meira vatn…
* * *
Fór í leiðangur í morgun upp að gömlu aðveitustöðinni í Reykjahlíð sem verið er að rífa. Fúlsaði við öllum rofabúnaði sem mér var boðinn. Hirti samt eina stjórntöflu og pantaði að fá sendar öryggisgrindur úr stöðinni. Þær yrðu flottar í leikmynd hér á Minjasafninu.
Ég fæ alltaf smá kikk út úr því að fara í svona vettvangsferðir. Einhvern veginn finnst mér ég þá vera „meiri safnamaður“ en þegar ég hangi í tölvunni eða rabba við útlenska túrista sem halda að Ísland geti leyst orkuvanda Evrópu og afstýrt gróðurhúsaáhrifunum.
* * *
Foreldrar mínir eru búnir að stefna mér í Esjugöngu. Það er akkúratt það sem ég þurfti í miðri hitabylgjunni…