Tottenham tapaði í dag. Fyrir vikið eru einungis fjögur lið eftir í ensku deildarkeppninni sem ekki hafa tapað leik það sem af er tímabili. Þau eru:
Arsenal – 7 leikir: 6 sigrar og eitt jafntefli
Chelsea – 7 leikir: 5 sigrar og tvö jafntefli
Wigan – 10 leikir: 5 sigrar og fimm jafntefli
Luton – 10 leikir: 9 sigrar og eitt jafntefli
Þessi fjögur knattspyrnulið eru greinilega í sérflokki í Englandi um þessar mundir. Einhverjir kynnu að halda því fram að hlutfall Luton sé best af þessum liðum – ég er þó ekki endilega að kalla okkur besta lið Englands…
Luton-menn vita eiginlega ekkert hvernig á að taka þessari velgengni. Enginn átti von á þessu fyrir tímabilið og allir bíða eftir að ævintýrið taki enda. Eftir stendur að við erum með 28 stig í efsta sæti, tvö næstu lið eru með 19 (Brentford og Hull).
Næsti deildarleikur verður erfiður – úti gegn Tranmere á laugardaginn. Á millitíðinni er skítaleikur í bikarkeppni Sendibílastöðvarinnar Þrastar (LDV-cup) á þriðjudag, úti gegn Swansea.
Held að stuðningsmennirnir hálft í hvoru vonist eftir tapi á þriðjudaginn, út frá rökunum að betra sé að taka út tapleikina í bikarkeppnunum. Þá er LDV-bikarinn súrasta keppni í heimi. Þar spila bara lið úr tveimur neðri deildunum. Eina hamingjan sem henni getur fylgt, er að komast í úrslitaleik á þúsaldarvellinum í Cardiff og fyrir miðjumoðslið að geta glatt sig við eitthvað. Þeir sem eru í toppbaráttu líta hins vegar bara á svona keppnir sem truflun og aukaálag.
* * *
Hearts vann Inverness í Skotlandi. „Efnafræðineminn“, sem svo er nefndur í bloggheimum, mætti í vísindaferð á Minjasafnið í gær. Hann heldur með Hearts eins og ég.
Efnafræðinemar eru skemmtilegir. Þeir eru kurteisari en gerist og gengur með háskólanema. Drekka líka minna.