Skítt með Svíalandsleikinn – á morgun er fjöldi leikja í Asíukeppni HM og þar er víða farið að draga verulega til tíðinda, enda kemst bara ein þjóð upp úr hverjum fimm liða riðli.
Á riðli 1 eru merkilegir hlutir í gangi. íran – sem er stórlið í Asíu – er í harðri baráttu við Jórdaníu um að komast áfram. Þau hafa bæði 9 stig og sama markamun, með tvo auðunna leiki eftir. Það má því búast við markaveislum hjá írönum og Jórdönum á morgun og í lokaumferðinni.
Á riðli 2 geta írakar nappað efsta sætinu af Úzbekum með sigri á heimavelli. Held samt að Úzbekistan sé sterkasta liðið í grúppunni og muni ná í það minnsta jafntefli á morgun.
Riðill 3 gæti orðið spennandi ef Óman sigrar Japan á heimavelli. Bæði liðin eiga þá auðunna lokaleiki og úrslitin ráðast á markatölu. Spái Japan samt sigri.
Sama er upp á teningnum í riðli 4. Þar myndi sigur Kuwait á Kína setja allt í uppnám. Kínverjar eiga þó að vera sterkari en svo.
Riðill 5 er einn sá allra áhugaverðasti. Sá riðill var strax í upphafi talinn einn sá jafnasti með Sameinuðu arabafurstadæmunum, Jemen, Norður-Kóreu og Tælandi – allt frambærileg lið. Staðan er núna sú að Norður-Kórea sem tekur á morgun á móti Jemen er efst með 8 stig. Furstadæmin eiga erfiðan útileik gegn Tælandi og hafa 7 stig. En takist þeim að vinna á morgun, bíður þeirra heimaleikur gegn Norður-Kóreumönnum í lokaumferðinni.
Riðill 6 gæti opnast upp á gátt ef Sýrlendingar, sem eru með 7 stig, vinna Bahrein sem er með 10 stig. Markatala Sýrlendinga er betri og léttari lokaleikur fyrir höndum.
Stærsti leikur morgundagsins er líklega viðureign Líbanon og Suður-Kóreu í riðli 7. Suður-Kóreumenn hafa 10 stig en Líbanir 9. Sigur Líbana þýddi að fjórða sætis liðið frá síðustu heimsmeistarakeppni sæti eftir með sárt ennið.
8. riðill er sá eini þar sem úrslit liggja fyrir. Sádi Arabía er fyrsta liðið í úrslitakeppnina. Engin spenna þar lengur.
Þetta verður stórskemmtilegt!