Er rétt að kalla föður sinn svíðing? Jú, því um helgina vorum við feðgarnir í málningarvinnu hér á Mánagötunni. Meðal verkfæra var hitabyssa frá Óla Guðmunds sem við notuðum til að svíða burt málningu – það er sannkallað svíðingsverk!
Við sviðum reyndar af kappi frekar en forsjá og það kom sprunga í eina af rúðunum í gesta/bókaherberginu. Sé núna að sprungan fer heldur stækkandi. Ekki þar fyrir að það þarf að skipta út þessum rúðum við tækifæri. Viðhaldsverkefnin hrúgast upp!
Og enn af viðhaldsverkefnum: Á fyrramálið á Blái draumurinn bókaðan tíma á verkstæði. Það styttist í að skoðunin renni út og nú eiga bifvélavirkjarnir mínir að meta hvað það muni kosta að koma bílnum í gegn. Allir sem átt hafa gamla skrjóða þekkja spenninginn sem fylgir þessum ferðum – í raun stendur valið á milli þess hvort hagkvæmara sé að laga bílinn eða kaupa nýjan. Þar sem ég hef það prinsip að eiga bara bíla sem kosta minna en mánaðarlaun, þá er það oft tvísýnt val.
SHA fundar í kvöld í Garðastræti 2. Sjá nánar á Friðarvefnum, www.fridur.is. Eflaust áhugaverður fundur.
Fékk góðar fréttir af góðum vini í dag. Eða öllu heldur fregnir sem reyndust miklu betri en óttast hafði verið í fyrstu.
Kjötsúpa hjá tengdó í kvöld. Lífið gæti varla verið betra.