Mikið maus og bögg bíður í dag blogglistamannsins, sem til skamms tíma var besti og frægasti bloggarinn. Vegna sýningar orkufyrirtækjanna í Smáralind munu Rafheimar lána allskonar dót og drasl, sem flytja þarf á staðinn án þess að allt fari í steik. Það er ekki gaman, einkum þar sem Óli Guðmunds er ekki á staðnum til að laga það sem kynni að hnjaskast á leiðinni.
Skammast ég mín fyrir að lána hávær leiktæki inn á sýningarrými og fela vinnufélögum mínum að standa við þau í 2-3 daga og hlusta á hrínandi börn? Já, dálítið – en ekki mikið.
# # # # # # # # # # # # #
Steinunn sat í gær aðalfund Öryrkjabandalagsins sem fulltrúi MS-félagsins. Svakalega eru mörg sjúklingafélög starfrækt á landinu. Hver er til dæmis munurinn á Geðhjálp og Geðvernd? Hjálpar fyrrnefnda félagið þeim sem eru snar, en hið síðarnefnda verndar þá sem ekki eru snar fyrir því að lenda í þeirri stöðu? Hvað veit ég?
Á laugardaginn er svo aðalfundur MS-félagsins. Þar sækist Steinunn eftir endurkjöri sem fulltrúi í aðalstjórn ÖBí. Það hefur ekki frést af mótframboði, en í ljósi þess að búið er að boða mótframboð gegn sitjandi formanni og stjórn, þá verður að gera ráð fyrir kosningum um ÖBí-sætin líka.
Það má því búast við dramatískum fundi á laugardag. Það er góð upphitun fyrir stórtónleika laugardagskvöldsins…