Ég geri ekki kröfu til þess að lesendur þessarar síðu skilji innviði innanfélagspólitíkurinnar í MS-félaginu. Ég ætla samt að blogga um niðurstöðu aðalfundarins í dag, enda er þetta mál sem skiptir MIG máli og markmiðið með þessu bloggi er jú að gefa mynd af MINNI heimsmynd, MíNUM tilfinningum og MíNUM skoðunum.
Á fyrra var haldinn tímamótaaðalfundur í MS-félaginu. Þáverandi formaður beið afhroð í kosningu, fékk þriðjung atkvæða gegn tveimur þriðju hlutum mótframbjóðandans. Meðframbjóðendur Sigurbjargar, sem kjörin var formaður félagsins, sigruðu með svipuðum mun. Steinunn hafði setið í stjórn árið áður en sóttist ekki eftir endurkjöri. Þess í stað bauð hún sig fram sem fulltrúi MS-félagsins í aðalstjórn Öryrkjabandalagsins.
Fráfarandi formaður vildi ekki styðja Steinunni heldur Sigríði Hrönn Elíasdóttur, Sjálfstæðiskonu frá Vestfjörðum. Mótframbjóðandinn, Sigurbjörg, lýsti hins vegar stuðningi við Steinunni. Þegar sitjandi stjórn tapaði hverri kosningunni á fætur annarri dró Sigríður Hrönn framboð sitt til baka og Steinunn hefur verið ÖBí-fulltrúi síðasta árið.
Að þessu sinni vildi gamli formaðurinn ná fram hefndum. Hún studdi til framboðs ungan dreng, sem var gjörsamlega grænn á bak við eyrun varðandi málefni félagsins. Um var að ræða pilt sem er trúlofaður stúlku með fjögurra mánaða gamla MS-greiningu. Persónulega er mér mjög til efs að aðstandandi MS-sjúklings sé fær um að gegna þessu starfi. Sá sem ekki hefur reynt á eigin kroppi hvaða áhrif þessi andstyggilegi sjúkdómur hefur, getur trauðla verið í forsvari fyrir sjúklingasamtökin.
Drengkvölinni var att á foraðið. Þau hjúin skrifuðu greinar í Moggann og komu sér í viðtal við Séð og heyrt, þar sem strákgreyið át upp subbulegar ávirðingar á hendur Sigurbjargar formanns. Það er erfitt að sakast við strákinn. Hann át bara upp það sem honum var talin trú um.
Fundurinn var haldinn í dag. Niðurstaðan var sú að meira en 80% fundarmanna á fjölsóttum fundi kusu gömlu stjórnina. 20% kusu stjórnarandstöðuframboðið. Steinunn var sjálfkjörin aftur í ÖBí. Líklega hefði hún fengið enn betri kosningu ef til hefði komið.
Eftir stendur að sumir fjölmiðlar eru búnir að láta draga sig á asnaeyrunum. Þeir hafa látið draga sig inn í subbulega kosningabaráttu í sjúklingafélagi og birt rakalausar staðhæfingar um fólk sem nýtur fulls trausts þorra félagsmanna til að gegna sínu starfi. Það er ákaflega erfitt að meta það tjón sem sú umfjöllun hefur valdið, hvað þá særindin sem hún hefur valdið viðkomandi einstaklingum.
# # # # # # # # # # # # #
Og annar sigur! Eftir þrjá tapleiki í röð snerum við Luton-menn vörn í sókn. 4:0 sigur á heimavelli gegn Bradford, sem var í 2-3. sæti. Sex stiga forysta þegar nóvembermánuður byrjar. Það er ekki amalegt.