Þegar ég verð stór…

Einhverju sinni heimsótti Anna Kristine Magnúsdóttir, blaðakona á tí­maritinu Fólk, Grænuborg og tók viðtal við okkur krakkana. Þar lýsti blogglistamaðurinn #, sem til skamms tí­ma var besti og frægasti bloggarinn, yfir pólití­skum stuðningi sí­num við forsetaframboð Vigdí­sar með orðunum „Ég held að hún sé það besta sem þjóðin kýs!“ – Dálí­tið hátí­ðlegt, en satt og rétt.

Meðal þess sem stjörnublaðamaður Fólks spurði okkur grí­slingana að, var hvað við ætluðum að gera þegar við yrðum stór – afsakið, fullorðin. Blogglistamaðurinn # varð fyrir svörum: „Bensí­nafgreiðslumaður – eða slökkviliðsmaður, því­ það er svo sjaldan sem kviknar í­!“

Ég varð greinilega snemma letihlunkur, því­ auðvitað var hugsunin þessi: hvernig get ég fundið mér vinnu sem útheimtir lágmarksvinnu eða -erfiði? Bensí­nafgreiðslumenn sáttu að mí­nu mati, drukku kaffi, lögðu kapal og snöruðu sér svo út á kortérsfresti og ýttu á einn takka. Slökkviliðsmenn voru enn heppnari. Það væru varla nema 2-3 útköll í­ viku og þess á milli gætu þeir leikið sér í­ makindum.

Á dag geri ég mér grein fyrir því­ að þessar hugmyndir um starfsvið bensí­nafgreiðslumanna og slökkviliðsins eru óraunhæfar. Auðvitað gera báðar stéttir meira en að dæla bensí­ni og vatni. Lí­klega telja bensí­ntittir og brunaverðir að þeir komi mestu í­ verk einmitt þegar enginn er bí­llinn á planinu eða eldur að brenna.

Og svona er þetta í­ öllum störfum. Sumir verða afar undrandi þegar þeir frétta að við safnverðir gerum MEST þegar gestirnir eru hvað FÆSTIR. Þegar gestir eru á safninu, þá fer tí­minn einkum í­ að kjafta við þá um hitt og þetta – þegar engir eru gestirnir er hægt að koma hlutum í­ verk.

Ætli það séu önnur störf en einfaldasta færibandavinna sem hægt er að meta einvörðungu með því­ að telja mí­núturnar sem starfsmaðurinn stendur við? Verði mönnum að góðu að ráða sér smið og greiða honum bara fyrir þær mí­nútur sem hann heldur á hamri eða sög. Megnið af tí­manum fer í­ snatt, undirbúning og útréttingar. Þannig er það nú bara.

Þetta skilja flestir – nema þegar kemur að vesalings kennurunum. Þar virðist sú hugmynd rí­kjandi að allt annað en nákvæmlega þær 40 mí­nútur sem hver kennslustund tekur – sé tóm tí­masóun og svikamylla til að herja út laun fyrir enga kennslu.

Liðið sem paunkast núna á kennurunum og sakar þá um að vilja fá greitt fyrir slugs og leti ætti að taka upp baráttu fyrir því­ að slökkviliðsmenn fái einungis greitt fyrir þær mí­nútur í­ mánuði hverjum sem þeir eru að slökkva elda. Skurðlæknar eigi sömuleiðis bara að stimpla sig inn um leið og búið er að rista upp sjúklinginn og fletja út á borð. Það væri skynsamleg og heiðarleg afstaða.