Ég hef ekki verið svona þreyttur lengi.
Ekki líkamlega þreyttur, þetta er ekkert sem aukadúr í fyrramálið myndi bæta. Nei, þetta er andleg þreyta. Blanda af sorg, reiði en þó fyrst og fremst máttleysistilfinningu.
Það eru engin vandræði heima fyrir – tóm lukka þar. Það er gaman í vinnunni og gengur vel í flestu mínu vafstri á öðrum stöðum.
Helvítis stríðið er hins vegar að draga úr mér allan þrótt. Að horfa upp á allt það rætast sem við sögðum svo ótal, ótal oft að myndi gerast. Vitandi af slátrun á tugþúsundum manna í geggjuðu stríði sem íslensk stjórnvöld studdu í okkar nafni.
Á dag var utandagskrárumræða á Alþingi vegna þess að um daginn birtist skoðanakönnun sem sagði að eitthvað hærra hlutfall Íslendinga hefðu horn í síðu innflytjenda. Visst mörg prósent Íslendingar vilja ekki búa við hliðina á útlendingi, vinna með útlendingi, eignast útlending að tengdason eða -dóttur. Og út af þessu lögðu menn á þinginu. Ræddu hvort Íslendingar væru virkilega að verða svona miklir rasistar? Gæti það virkilega hugsast?
En er til svæsnari birtingarmynd rasisma en stríðið í írak? Það hvernig við hugsum um þá þjóð sem þarna býr og hvernig það vefst ekki fyrir sama fólki og býsnast yfir rasískum tilhneigingum í skoðanakönnuninni umræddu, að taka sér dómaravald yfir fólkinu í Fallujah.
Fólkið í írak er á móti stríðsrekstrinum og herförum Bandaríkjamanna, fáir aðrir en dyggustu fylgisveinar Bush-stjórnarinnar halda öðru fram. Verjendur hernaðarins á Íslandi telja sig hins vegar vera betur færa um það að ákveða hvað séu „ásættanlegar fórnir á mannslífum“ og hvað sé írökum „í raun fyrir bestu“. Hvernig í ósköpunum getur það talist minni rasismi en það þótt einhverjir kjánar segist í Gallupkönnun ekki vilja fá Júgóslava sem nágranna.
Ég hef séð vini og félaga missa fótana varðandi áfengi og dóp. Þegar maður fylgist með slíku verður maður vitni að ótrúlegri brenglun á allri rökvísi og veruleikaskynjun. Á mínum huga er stuðningur við þetta stríð slík brenglun. Þegar Sólveig Pétursdóttir segir í þingsal að uppbyggingarstarfið sé hafið í Fallujah – þá sé ég ekki annað en brenglaðan fíkil sem reynir að sannfæra umhverfi sitt um að allt sé í góðu lagi.
Mig langar eiginlega til að fara að skæla. Ekki endilega vegna fólksins sem er verið að drepa þarna í þessum rituðum orðum, frekar yfir eigin máttleysi. Að geta svo sáralítið gert, hér norður í rasskati – svo fjarri, svo úr tengslum við þessi ósköp. Eitt skal þó aldrei gerast og það er nú ástæðan fyrir að maður legst ekki í tómt þunglyndi – það er að maður reyni ekki að minnsta kosti að gera það litla sem maður getur.
Ég er farinn að sofa. Góða nótt.