Á morgun fer ég á mámskeið. Ekki í fyrstu hjálp eða notkun tölvukerfa – heldur mætingarstjórnun! Við millistjórnendurnir í Orkuveitunni erum allir skikkaðir á námskeiðið, þar sem ég býst við að einhver mannauðsstjórnunarfræðingur útskýri fyrir okkur að ef starfsmaður mæti seint og illa eigi ekki að öskra á hann, heldur setjast niður og ræða málin.
Illu heilli verður námskeiðið fyrir utan bæinn og ekki hægt að komast þangað nema mæta tímanlega. Hefði maður annars getað stillt sig um djókinn – að koma of seint á mætingarstjórnunarnámskeið?
Annars brá mér illilega þegar ég fattaði að námskeiðið – sem ég hélt að væri klukkutíma fyrirlestur – tekur heilan dag, frá 9 til 17. Fyrir vikið missi ég af tímanum hjá ísu ljósmóður – þeim fyrsta frá því að við Steinunn fengum sónarmyndina af gríslingnum…