Milli hörmungafréttanna frá Asíu í gær, var í fréttatíma Stöðvar 2 í gær rætt um bjórauglýsingu sem lesa mátti úr ýmis skilaboð. Auglýsingin var eitthvað á þá leið að sýnd var skrípateikning af heldur aulalegum náunga sem var að bisa við að afklæða konu. Hann var með skelfingarsvip þess sem á í vandræðum með að spretta upp ókunnum brjóstahaldara við aðstæður sem ekki bjóða upp á fum og fát. – Sem betur fer kom bjórálfurinn til hjálpar og smellti spennunni lausri og má ætla að glatt hafi orðið á hjalla.
Ekki hafði ég tekið eftir þessari auglýsingu fyrr en Stöð 2 sýndi hana í fréttinni og efast um að hún hefði stungið mig neitt sérstaklega. Gagnrýnandi auglýsingarinnar taldi hana hins vegar klámfengna, ýta undir þá hugmynd að gott og gilt sé að hella konur fullar til að komast upp í rúm með þeim og gott ef ekki væri ýjað að einhverjum afbrigðilegheitum í kynlífi þar sem persónurnar á myndinni væru jú þrjár – maðurinn, konan og 20 sm. búálfurinn…
Nú er það hverju orði sannara að kynlífsvísanir í auglýsingum eru komnar út fyrir allan þjófabálk. Alls konar matvæli, en þó einkum sælgæti, ís og gos, eru einatt auglýst með nautnalegum konum – líkt og framleiðendurnir treysti sér ekki til að auglýsa gæði og kosti vörunnar sinnar. Þetta er hvimleitt og er eflaust hluti af áreiti sem reynist samfélaginu skaðlegt þegar til lengdar lætur.
Bílar, raftæki, fjármálastofnanir – allt eru þetta fyrirbæri sem fráleitt virðist að auglýsa með kynlífsvísunum… en er áfengi endilega í þeim hópi?
Jafnvel hörðustu varðhundar velsæmis í auglýsinum, myndu fallast á að verslun sem selur undirfatnað sé nokkrum „rétti“ til að sýna fólk á nærhöldum í auglýsingum sínum. Á því tilviki er myndefnið fyllilega í samræmi við eiginlegt notagildi varningsins. – Á sama hátt er meiri glóra í því að sýna hraðakstur og handbremsubeygjur í auglýsingu þar sem verið er að selja bíla en súkkulaði. (Hvað Umferðarstofa segir um slíkan boðskap er svo aftur annað mál.) – En hvað þá með áfengið?
Er boðskapurinn: áfengi getur hjálpað þér í vandræðalegum þreifingum með hinu kyninu (eða sama kyni ef út í það er farið) – alveg út í hött? Er ekki einmitt tilfellið að fullt af fólki, karlar jafnt sem konur, nota áfengi til að losa um ýmsar hömlur og einfalda fyrstu skrefin?
Hversu hátt hlutfall af öllum samböndum á Íslandi ætli hafi orðið til þegar annar aðilinn eða báðir höfðu vín um hönd? Hversu margir hafa notað bjór, léttvín eða sterkari drykki til að brjóta ísinn á einhverjum tímapunkti í tilhugalífinu? Ansi margir.
Og þá erum við bara að tala um þau sambönd sem eitthvað varð úr. Oft bregður fólk á leik af forvitni og án þess að vera með makaleit í huga. Þar kemur áfengi mjög oft við sögu. Er einhver ástæða til að fordæma skyndikynni og gera lítið úr þeim?
Eru samskipti fólks sem eiga sér stað undir áhrifum á einhvern hátt „ómerkilegri“ en þau sem eru það ekki? Eru þau ekki frekar öðruvísi?
Þegar við Steinunn vorum að draga okkur saman á sínum tíma, var áfengi ekki alltaf langt undan. Það var alltaf til rauðvínsflaska upp í skáp á Hringbrautinni. Um þessar mundir voru flestir í mínum vinahópi tíðir gestir á Næsta bar. Sá staður kom mjög við sögu fyrstu vikurnar okkar. Þar var sjaldnast drukkið kaffi eða maltöl.
ín þess að hafa nokkra félagsfræðilega úttekt í höndunum, leyfi ég mér að fullyrða að meirihluti fólks hafi svipaða sögu að segja, að það hafi notað áfengi í sínum samböndum og í sínu kynlífi – gott ef ekki einmitt til að ná að spretta upp ókunnum brjóstahaldara í fyrsta sinn.
Fólk má alveg hafa þá skoðun að æskilegast væri að öll pör kynntust í strætó eða yfir kakóbollum – en það er fráleitt að loka augunum fyrir veruleikanum.
Þess vegna angraði fréttin á Stöð 2 mig. Hvers vegna þarf að túlka mynd af bjórálfi að hjálpa klaufskum karli við að spretta upp brjóstahaldara á þann hátt að í því felist ofbeldisfull skilaboð? Hvers vegna á það að vera augljóst að teikning sem þessi „ali á mýtunni um að rétt sé að hella stelpur fullar og draga þær í bólið“? Er það ekki merki um ákveðna fórnarlambavæðingu hugarfarsins að gera konuna á myndinni sjálfkrafa að grunlausu fórnarlambi þriðja aðilans í spilinu – bjórálfsins fingralanga?
Vaxandi klámvæðing dægurmenningurinnar – sagði álitsgjafinn á Stöð 2 í gær. Ég veit það ekki, var þessi auglýsing ekki bara öllu raunsannari en margt annað sem haldið er að okkur? Á það minnsta er hún mun sennilegri en öll súpan af auglýsingum um súpermódel og íþróttastjörnur sem þamba gosdrykki og úða í sig nammi.