Ekki er mér nú vel við að koma Valsmönnum til varnar á opinberum vettvangi og allt eins von á að fá á baukinn hjá Frömurum fyrir. Verð samt að leiðrétta Jakob Bjarnar, sem ég veit að les þessa síðu.
Jakob víkur í fjölmiðlapistli í DV á laugardaginn að því að Valsmönnum hafi tvö ár í röð verið bjargað frá falli í fótboltanum með því að fjölgað var í deildinni. Þetta er ágæt saga, sem Jakob hefur margoft sagt í hinum ýmsustu útvarpsþáttum. Hið rétta er, að þetta var í körfuboltanum ekki fótboltanum. Það er hér með leiðrétt.
Hitt er annað mál að líklega veit Jakob betur. Hann ástundar líklega þá gömlu strategíu að „láta helvítin neita því“.
# # # # # # # # # # # # #
Snillingarnir í Bílhúsinu ætla að smyrja bílinn minn í fyrramálið og skoða hvort rafgeymirinn er eitthvað að slappast. Festist á ljósum í morgun, þar sem bíllinn komst ekki í gang fyrr en eftir dúk og disk.
Vonandi brestur á með úrhellisrigningu seinnipartinn. Það er löngu orðið tímabært að hreinsa klakann af götunum. Ég hef tröllatrú á að komið sér vor!
# # # # # # # # # # # # #
Á gær undirbjó ég vísindasögutímann og las því ýmsar greinar um stjörnufræðirannsóknir. Þar datt ég niður á skrif ýmissa nöttara sem héldu að Hale-Bopp halastjarnan sem kom um 1997 í námunda við jörðina væri geimskip og boðaði heimsendi. Herregud hvað það er mikið af geggjuðu fólki til.