Á andyri Minjasafnsins stendur stytta af kúnstugum litlum karli, sem skorin er út í tré. Hún nefnist Lugtar-Gvendur, enda heldur karlinn á einhverskonar handlugt. Saga styttunnar er ekki alveg á hreinu, en hún stóð í mörg ár í húsnæði vinnuflokka Rafveitunnar uns hún var flutt á safnið fyrir nokkrum misserum.
Tvívegis á síðustu árum hefur hringt í mig maður sem telur órétti beittan varðandi styttu þessa. Á gær mætti hann á safnið ásamt tveimur félögum sínum. Þau voru öll í hálfannarlegu ástandi, en erfitt að segja hvort það var áfengi eða önnur efni sem réðu för.
Eftir nokkrar málalengingar kom maðurinn sér að efninu. Saga hans er í flestum meginatriðum eins í hvert skipti – að styttan hafi verið gerð af erlendum manni sem hér starfaði á hans vegum. Rafveitan – og nú Orkuveitan – hafi tekið til sín styttuna, en aldrei greitt krónu fyrir. Nú væri komið að skuldaskilum og líklega væru 500 þúsund krónur nærri lagi.
Að venju útskýrði ég fyrir manninum að hann gæti ekki vænst þess að fá fullar hendur fjár út á þessa sögu. Þess í stað yrði hann að sanna eignarhald sitt og senda svo fyrirtækinu reikning. Þessar fregnir valda honum alltaf jafnmikilli gremju, hann kvartar undan svívirðilegri framkomu fyrirtækisins og útskýrir að hann þurfi að fá peningana strax enda skuldin orðin ævagömul.
Við spurðum hvers vegna hann væri ekki löngu búinn að rukka þessa peninga, en fengum þau svör að hann hefði verið upptekinn á Indlandi, við demantasmygl.
Að lokum skyldist félaganum að enga peninga væri að finna í Elliðaárdalnum, en þess í stað hyggst hann taka málið upp við Alfreð Þorsteinsson eða jafnvel borgarstjóra. Væntanlega munu tengsl hans við Vigdísi Finnbogadóttur koma sér vel, enda kom fram í samtalinu að þau Vigdís hittust vikulega fyrir nokkrum árum og reyktu saman hass. Ekki hafði ég neina ástæðu til að rengja þá frásögn – ekki frekar en söguna af því þegar hann klifraði ellefu ára gamall upp í topp Hallgrímskirkju fyrstur manna.
Ójá. Gaman væri að eiga hálfa millu útistandandi hjá stöndugu fyrirtæki…