Viku eftir að svalahandriðið var rifið á húsinu á móti, er búið að setja upp ný handrið við allar íbúðirnar. Útfærslan var snjöll, járngrind með steni-plötum til að líkja eftir áferðinni á húsinu. Breytingin er mjög til bóta, en þó verður að segjast að liturinn er í það bleikasta miðað við dumbungsgráan vegginn.
Fyrir tæpum fimmtán árum, þegar ég var í handlangi í byggingavinnu á Sauðárkróki, voru steni-plöturnar nýkomnar á markaðinn. Þær voru gríðarleg framför, enda höfðu flestar klæðningar kallað á miklu flóknari grindur en nú þurfti. Ef ég man rétt var eitt helsta vandamálið að ganga rétt frá listunum milli platna. Á þá negldum við einhverjar málmþynnur sem ekki máttu rispast, annars væri fjandinn laus.
Síðast þegar ég heimsótti Sauðárkrók renndi ég framhjá íTVR-versluninni á staðnum – og sjá, steni-klæðningin var eins og ný!
# # # # # # # # # # # # # #
Renndi í gegnum DV í biðröð í verslun í hádeginu. Fótboltapistillinn minn sem hvorki birtist í gær né fyrradaga, var heldur ekki í blaðinu í dag. Þar sem ég lét fljóta með pistlinum orðsendingu um að ég ætlaði að hætta skrifum með vorinu, þegar brysti á með fæðingarorlofi, þá kann vel að vera 365 prentmiðlar hafi ákveðið að best væri að slá dálkinn af strax. Það væri þá einu stressinu minna.
# # # # # # # # # # # # # #
Fór í Blóðbankann áðan. Hitti þar Þorkel miðjumann MS-inga og við spjölluðum um keppni kvöldsins.
Það var greinilega talsvert af starfsfólkinu dregið, enda viðbúið að reynt hafi verið að safna sérstaklega miklu blóði fyrir páskahátíðina. Starfsaðstaðan er heldur ekki sú besta. Húsið er alltof lítið, ekki að það hafi nein áhrif fyrir þá sem koma og gefa blóð, en starfsfólkið er ekki öfundsvert að vinna í þessum þrengslum.