Gærdagurinn fór allur í tiltekt og húsgagnaflutninga á Mánagötunni og því ekkert færi á að blogga um úrslitaleikinn fyrr en nú.
Góð keppni tveggja sterkra liða. Akureyringar hafa styrkst með hverri umferð og ísgeir kantmaður er hiklaust í hópi sterkustu keppenda ársins. Með tvo af þremur liðsmönnum áfram á næsta ári ætti MA að eiga raunhæfa möguleika á að berjast um titilinn.
Að venju varð ég hissa á sumum þeirra spurninga sem svör fengust við og öðrum sem ekki komu. Ég átti t.d. ekki von á svona góðum svörum við villuleitar-spurningunni eða bókmenntaspurningunni um Meistarann og Margarítu. Á hinn bóginn hafði t.d. spurningin um Viðey sem Reykvíkingar fengu í 200 ára afmælisgjöf verið sett inn til að fá örugglega rétt svar – án þess að það kæmi.
Eins og svo oft áður réðu hraðaspurningarnar mestu um úrslitin. Borgarholt náði sex stiga forystu og var aldrei í teljandi hættu að missa hana, þótt munurinn færi nokkrum sinnum niður í 2-3 stig. Útslagið gerði þó í hversu miklu stuði Baldvin var. Besta keppni hans og hann var maður kvöldsins. Fagnaðarlætin í lokin voru fyrirsjáanlega tryllingsleg.
Borgarholtsskóli var með besta liðið í ár og sigraði verðskuldað. Þótt auðvitað sé erfitt að fullyrða um nákvæma röð liðanna út frá nokkrum stökum keppnum og án þess að sjá þau mætast innbyrðis, myndi ég telja MR-liðið næststerkast, MH-liðið skammt þar á eftir og því næst Akureyringar.
Allur þessi samanburður geldur fyrir það að MR-ingar fengu ekki að spreyta sig í Sjónvarpi. MH er sveiflukenndara lið. Þau geta unnið alla á góðum degi, en detta stundum niður á slakar viðureignir – sem hefur reyndar verið einkenni á MH-liðum í nokkurn tíma. Akureyringa set ég í fjórða sætið, án þess að með því sé verið að gera lítið úr góðri frammistöðu þeirra í úrslita- og undanúrslitaleikjunum.
Á fimmta sætið set ég Versló; MK í sjötta og MS í sjöunda. Egilsstaðabúar og Hraðbrautarmenn voru svo á svipuðu róli sem áttunda besta lið. Iðnskólinn, Norðfjörður og Laugar vöktu sömuleiðis athygli – svo eitthvað sé nefnt.
Eftir því sem mér skilst teflir Borgarholt fram nýju liði á næsta ári, þar sem liðsmenn ýmist útskrifa eða leggja heilann á hilluna. Með fyllstu virðingu fyrir uppeldisstarfinu í Grafarvoginum, þá verður að teljast mjög ólíklegt að glænýtt lið verji titilinn.
MR-ingar útskrifa tvo af þremur og sömu sögu er að segja af MH-ingum. Með alla þessa hefð og þann aragrúa spurninganörda sem þessir skólar hafa yfir að búa, eru allar líkur á að báðir skólar verði í fremstu röð að ári, ásamt Akureyringum – eins og fyrr sagði.
Versló missir Hafstein, sinn besta mann. Verslingar bera sig vel og segjast hafa fullt af sterkum busum og að fleiri séu á leiðinni. Það gæti skilað þeim á toppinn eftir tvö ár, en tæplega strax á næsta ári.
MS og MK geta teflt fram óbreyttum liðum og eiga sæti í Sjónvarpinu vís. Ég hef áður lýst þeirri trú minni að ef MK-ingar álpast ekki til að útskrifast of snemma og tefla fram lítt- eða óbreyttu liði næstu tvö árin, þá berjast þeir um titilinn 2007.
Inn í þessa upptalningu vantar vitaskuld ýmsa skóla. Hvar er til dæmis Fjölbrautaskólinn í Breiðholti? Hvers vegna getur jafn öflugur skóli og FB ekki tekið þessa keppni föstum tökum?
Það verður skemmtilegt að geta fylgst með þessu öllu heiman úr stofu næsta vetur.
# # # # # # # # # # # # #
Eftir keppni fórum við Steinunn í gleðskap þeirra Borghyltinga heima hjá Steinþóri miðjumanni. Þar voru m.a. Akureyringar og skemmtu sér hið besta. Virtust reyndar steinhissa á því hversu gríðarlega heitar tilfinningar Borghyltinga væru gagnvart keppninni og bættu því við að Borgarholtsliðinu hefði greinilega langað miklu – miklu meira í Hljóðnemann.
Gettu betur-sigurpartí eru sérkennilegt menningarfyrirbæri.