Það er langt síðan ég hef kynnt til sögunnar nýjan lið á þessari bloggsíðu. Ekki fór vel með sjoppukeppnina í haust, henni lauk án þess að endanleg úrslit fengjust. Og það sem verra var, enginn kvartaði yfir því!
Nú er hins vegar komið að því að reyna eitthvað nýtt – sem er þó jafnframt klassískt og þjóðlegt: Palladómar skal það vera!
Það er löng hefð fyrir palladómum í íslensku samfélagi. Vinsælustu palladómar voru rifnir út úr verslunum og lesnir upp til agna. Hver veit nema það verði raunin að þessu sinni?
Palladómur I – Páll Vilhjálmsson (blaðamaður)
Páli Vilhjálmssyni kynntist ég lítilega þegar ég var pjakkur í Alþýðubandalaginu. Páll var þá ritstjóri Vikublaðsins, sem var blað í mikilli tilvistarkreppu. Ólafur Ragnar hafði slegið af Þjóðviljann og lýst því yfir að tími flokksblaða væri liðinn á Íslandi. Nokkrum mánuðum síðar stofnaði hann Vikublaðið, sem hreinlega hafði merki flokksins í blaðhaus.
Allaballar tóku Vikublaðinu af tómlæti. Margir pirruðust út í það vegna þess eins að það væri ekki Þjóðviljinn – sem var býsna ósanngjarnt. Fólk utan Alþýðubandalagsins leit á það sem innaflokksblað og það var sárasjaldan vitnað til þess í almennri umræðu. Meira að segja þegar blaðið skúbbaði (sem gerðist endrum og sinnum) þá áttu sjónvarpsstöðvarnar það til að stela fréttunum án þess að geta heimildarinnar.
Páll var ágætur ritstjóri, einkum ef haft er í huga hversu litlu hann hafði úr að spila peningalega. Það var ekki hægt að ráða pistlahöfunda og Óli í Ríó Tríóinu var eins og útspýtt hundskinn að taka allar myndir blaðsins og semja heilu og hálfu fréttirnar í leiðinni.
Einkenni Páls voru þó löngu greinarnar – leiðararnir sem virtust engan enda ætla að taka. Þar voru endursagðar erlendar bækur um pólitík og sögu – allt frekar þungmelt.
Eftir að Vikublaðið var slegið af, var Páll ráðinn á eitthvert vikublaðið – Helgarpóstinn að mig minnir. Þegar útgefandinn ætlaði að slá blaðið af, kom hópur manna saman – þar á meðal allnokkrir Allaballar – og ákváðu að reyna að reka sjoppuna. Svo fór að lokum að Páll rak blaðið meira eða minna fyrir eigin reikning. Það er dæmi sem ljóst var að gat aldrei gengið upp.
Það var reyndar í andaslitrum blaðsins að Páll Vilhjálmsson náði sér best á flug. Hann skrifaði forsíðufréttir viku eftir viku um Jón Ólafsson og óþverraskap hans. Þegar flett var í gegnum blaðið mátti sjá að auglýsendurnir voru einkum menn sem höfðu horn í síðu Jóns. írni Samúelsson í Sam-bíóunum ákvað t.d. að best væri að punda inn auglýsingum fyrir hinar og þessar kvikmyndir og útvarpsstöðin FM átti sínar heilsíður. Þrátt fyrir að greinarnar um Jón vektu athygli, fór blaðið á hausinn og Páll kom í viðtal og sagðist búast við að þurfa að fara á sjóinn til að vinna fyrir skuldum. Um svipað leyti minnir mig að hann hafi lent í meiðyrðamáli gegn téðum Jóni og líklega tapað.
Síðar gerðist Páll Vilhjálmsson órólega deildin í Samfylkingunni, sem þá var að komast á laggirnar. Hann varð formaður Seltjarnarnessfélagsins (og er kannski enn?) Seltjarnarnesdeild Samfylkingarinnar reyndist dugleg við að pönkast á forystunni og sendi í sífellu frá sér ályktanir þar sem hitt og þetta í fari flokksins var gagnrýnt. Samfylkingarfólk kveinkaði sér mikið undan þessu og fór að láta að því liggja að félagsmenn í þessu blessaða Samfylkingarfélagið væru nú ekki ýkja margir. Páll færðist hins vegar allur í aukana og hélt áfram að láta öllum illum látum.
Á seinni tíð hefur Páll Vilhjálmsson einkum komið fram í sem greinahöfundur í Mogganum, þar sem hann er einatt í hlutverki þess sem bendir á hræsni og tvöfeldni samherja sinna – sem er nauðsynlegt en óþakklátt hlutverk. Hann húðskammaði t.d. R-listann fyrir kaupin á Stjörnubíósreitnum og má það teljast makleg gagnrýni.
Að aðalstarfi vinnur Páll hins vegar hjá Rannís að ég held. Þar hef ég aðeins haft af honum að segja í tengslum við skipulagningu á Vísindadögum, sem hann hafði umsjón með og gerði vel. Páll Vilhjálmsson er merkiskarl og vel að því kominn að vera fyrsti Pallinn sem fær um sig dóm – Palladóm.
(ATH: Palladómur þessi er að öllu leyti skrifaður eftir minni og án nokkurrar rannsóknarvinnu eða skipulagðrar upprifjunar. Hann er eflaust fullur af staðreyndavillum, rangfærslum og brenglaðri tímaröð. Einu málsbætur mínar í þeim tilvikum er að grípa til orðræðu postmódernistanna sem benda á að sannleikshugtakið sé afstætt og allt sé texti. Ójá.)
# # # # # # # # # # # # #
Blogghvíld síðustu daga á sér einfaldar skýringar. Við Steinunn skelltum okkur á Suðurlandið til að hvíla lúin bein eftir annasamar vikur. Gistum á Hótel Selfossi. Syntum í Hveragerði, skoðuðum Knarrarósvita, sváfum mikið, átum dýrðlegan kvöldverð í Rauða húsinu á Eyrarbakka og fengum sömuleiðis fínan mat á austurlenska veitingastaðnum Menam á Selfossi.
Á Selfossi er flottasta matvöruverslun á Íslandi – það er nýja Nóatúns-búðin. Þar eru nefnilega þrjár akreinar milli hillusamstæða. Það er sem sagt hægt að koma þremur innkaupakerrum fyrir hlið við hlið. Hvernig gátum við komist af án slíks munaðar öll þessi ár?
# # # # # # # # # # # # #
Luton er með pálmann í höndunum. Eftir ljótan skell gegn Barnsley í sjónvarpsleiknum á föstudaginn langa unnum við Torquay á útivelli – 1:4. Öll hin toppliðin gerðu jafntefli í fyrri umferðinni og töpuðu í þeirri seinni. Tranmere er núna í þriðja sæti, 13 stigum á eftir okkur og á sex leiki eftir á móti fimm leikjum okkar. Það er varla hægt að klúðra þessu. Hull er sömuleiðis þremur stigum á eftir í baráttunni um titilinn. Framtíðin er björt – framtíðin er appelsínugul!
# # # # # # # # # # # # #
Hvers vegna fáum við ekki fleiri fréttir þar sem fréttamenn endursegja samtöl sín við leigubílsstjóra? Væri ekki flott ef Bogi ígústsson birtist á skjánum og segði sem fyrstu frétt frá spjalli sínu við Gúnda á leigara númer 45 sem skutlast hefði með hinn eða þennan fyrr um daginn? Meira af þessu í fréttirnar!