Tengdamamma býr í Lönguvitleysu. – Nei, það er ekki götuheiti milli Hundavaðs og Ólafsgeisla, heldur uppnefni á löngu blokkinni í Kjarrhólmanum í Kópavogi, sem gnæfir yfir Fossvogsdalinn. Á Lönguvitleysu eru u.þ.b. tuttugu samliggjandi stigagangar og engin leið til að komast afturfyrir húsið önnur en að fara hringinn.
Mér skilst að það hafi ekki verið nein sérstök hugmyndafræði á bak við þessa byggingaraðferð – heldur hafi verið um hagkvæmnissjónarmið að ræða, þar sem hægt var að nota byggingarkranann betur með þessu móti. Sel það ekki dýrar en ég keypti.
Á vef Valsmanna má lesa frétt um framtíðaruppbyggingu við Hlíðarenda (þetta verður magnað íþróttasvæði).
Ef smellt er á myndina í horninu, sést stærri tölvuteiknuð mynd af svæðinu eins og arkitektar hafa hugsað sér það. Fjær má sjá Landsspítalasvæðið með sínum mikla byggingamassa.
Það sem vekur meiri athygli mína er þó bjúgverpillinn sem búið er að koma fyrir vestast á svæðinu. Getur verið að svipta eigi Lönguvitleysu metinu, sem lengsta bygging höfuðborgarsvæðisins? Eru kranar ennþá svona dýrir – eða þykir þetta etv. fallegt í dag?