Sú var tíðin að Skjár einn reyndi að halda úti kvöldþáttunum „…og félagar“. Þar var reynt að herma eftir amerísku spjallþáttunum. Fyrst var Axel og félagar.
Axel var gömul Morfís-kempa að norðan og fyrrum dagskrárgerðarmaður á FM957. Hann notaði sömu takta og svívirkuðu í Morfís í gamla daga og henti blýöntum. Félagarnir voru Villi Goði og hljómsveitin Buff ef ég man rétt.
Síðar fór Axel í viðtal í blaði sem dreift var á flest heimili landsins. Þar sagðist hann senn mundu verða milljóner á pýramídaviðskiptum og því væri hann ekki í sjónvarpi fyrir peningana heldur af hugsjón. Á viðtalinu lofaði hann að forvitnilegar breytingar á þættinum væru framundan.
Forvitnilegu breytingarnar voru þær að Axel var rekinn og Björn Jörundur ráðinn. Vinirnir sátu sem fastast og þátturinn nefndist þá Björn og félagar. – Björn var um þessar mundir allt í öllu á Skjá einum og stýrði m.a. hinum stórskrítna þætti Út að borða með Íslendingum ásamt Ingu Lind.
Björn varð ekki langlífur sem íslenski Letterman og Gunnar Helgasona – þá nýbúinn í hlutverki Nonna sprengju (íslenski Jerry Springer) tók við. Gunni og félagar voru í einhvern tíma í loftinu. Allt er þá þrennt er og vinirnir fengu ekki fleiri leikfélaga – enda hljóta menn að hafa verið farnir að setja spurningamerki við trygglyndi þeirra…
Nema hvað – í kvöld var frumsýndur þátturinn Gvendur og félagar á nýju sjónvarpsstöðinni. Ég hefði getað svarið það að Axel væri kominn aftur á skjáinn, nema ég þekki bæði hann og Gumma Steingríms í sjón. Morfís-taktarnir voru eins, en það vantaði trixið með að henda blýöntum. Og hvar eru vinirnir? Hvers konar kvöldþáttur er ekki með húshljómsveit? Ein nikka kemur ekki í stað vinabandsins.
En eitt heilræði til þáttarstjórnandans: Guðmundur, þegar Sigtryggur Magnason tekur þið í forsíðuviðtalið í nýja Sirkus-tímaritinu – ekki, ALLS EKKI lofa forvitnilegum breytingum á næstunni. Það er koss dauðans.