Stóra-Bubbamálið er skemmtilegt dæmi um sjálfbæran fréttaflutning.
Starfsmaður fjölmiðlafyrirtækis (Eiríkur Jónsson) skrifar subbulega frétt um annan starfsmann fjölmiðlafyrirtækisins (Bubba Morthens). Sá starfsmaður gefur vinnufélögum sínum innan fjölmiðlasamsteypunnar (fréttastofu Stöðvar 2) viðtöl um hversu reiður hann sé, meðan vinnufélagar beggja (ritstjórn DV) smjatta á öllu saman.
Enn einn hópur starfsmanna fyrirtækisins (staffið á Talstöðinni) fordæmir kollega sína og komast fyrir vikið í viðtöl hjá félögum sínum (á Stöð 2 og Bylgjunni). Loks geta enn einir starfsmenn samstæðunnar (Fréttablaðið) skrifað lærða leiðara um „nýju blaðamennskuna“. – Allt stuðlar þetta svo að metsölu hjá þeirri deild fyrirtækisins sem startaði allri vitleysunni (Hér og nú).
Með öðrum orðum:
365 miðlar eru orðið svo stórt fyrirtæki að það getur stundað sjálfbæra fréttamennsku. Þó ekkert sé að gerast í samfélaginu sem kallar á hasar og umfjöllun, þá getur risinn rifist við sjálfan sig og þar með búið til fréttir.
Sniðugt!