Snuist í hringi

Fyrst þegar við Steinunn fórum að ræða um að breyta eldhúsinu á Mánagötunni, lögðum við upp með eina grunnforsendu: við ætluðum að færa vaskinn frá veggnum og koma honum fyrir undir glugganum.

Eftir heilabrot og vangaveltur í­ marga daga, þar sem fjöldi góðra manna og kvenna hefur komið að verki og gaukað að okkur hugmyndum, virðist niðurstaðan ætla að vera á þann veg að hverjum skáp og eldhústæki hafi verið skákað fram og til baka – en vaskurinn verði á nokkurn veginn upprunalegum stað.

Okkur sýnist að eftir langt og gott samtal við hönnuð frá húsgagnafyrirtækinu sé loksins komin teikning sem við sættum okkur við.

Hún er ekki fullkomin. Hið fullkomna eldhús kemst tæplega fyrir í­ eldhúsi sem er 2,4 sinnum 2,6 metrar. Fyrir tugþúsundir í­ viðbót hefðum við getað stækkað gólfflötinn um kvartfermetra, með því­ að saga burt strompinn. Jafnvel þótt við hefðum átt þá summu á lausu, er lí­til hætta á að við hefðum látið til leiðast. Hvorugt okkar kærir sig um að hafa stórfé bundið í­ mublum eða innréttingum.

Eftir stendur að mig sárvantar iðnaðarmenn. Þegar eldhúsinnréttingin verður tilbúin eftir dúk og disk hef ég aðgang að smiðum. Hluta af múrverkinu ættum við sömuleiðis að geta reddað eftir öðrum leiðum. Pí­paravinnan er lí­til og dúkaraverkið sömuleiðis. – En stóra málið er rafvirkjavinnan!

Mánagatan 24 er gamalt hús, frá 1939 ef ég man rétt. Tenglar og rofar voru af skornum skammti og seinni tí­ma viðbætur hafa allar verið gerðar af vanefnum. Á eldhúsinu er ástandið sérstaklega slæmt. Litlar eða engar raflagnir eru í­ stærstum hluta þess, þar á meðal á stöðum sem við verðum að fá tengla á. Þetta verður helv… hausverkur.

# # # # # # # # # # # # #

Þrælarnir á Sky Sport kynntu fyrstu áætlun um beinar útsendingar fram yfir miðjan nóvember. Enginn leikur með Luton á dagskránni. Ég er foxillur.

# # # # # # # # # # # # #

Breiðbandið er ekki komið í­ Mánagötuna og einhverra hluta vegna treystir Sí­minn sér ekki til að áætla hvenær úr því­ verður bætt.

Okkur labbakútunum á Breiðbandslausu svæðunum býðst þess í­ stað að kaupa nettengingu af Sí­manum og fá sjónvarpsþjónustuna í­ gegnum þá tengingu.

En hvernig er það með viðskiptavini annarra sí­mafyrirtækja? Eiga þeir einhvern möguleika á að koma inn í­ þetta kerfi? Eru tæknilegar hindranir í­ vegi fyrir því­ eða viðskiptalegar einvörðungu? Spyr sá sem ekki veit.