Reagan á toppnum

Les á net-Mogganum að Ronald Reagan hafi sigrað Lincoln í­ skoðanakönnun um merkasta Bandarí­kjamann sögunnar. Getur ein þjóð lýst frati á sjálfa sig með afdráttarlausari hætti?

Hvern hefði maður sjálfur valið? Lí­klega Thomas Edison.

# # # # # # # # # # # # #

Fréttablaðið upplýsir að Jóhannes Páll II muni á næstunni verða dýrðlingur. Búið er að fá í­ gegn reglubreytingu og setja á stofn nauðsynlegar undirbúningsnefndir. Það eina sem karlinn á eftir að gera er að framkvæma 1-2 kraftaverk, t.d. með því­ að lækna krabbamein eða gefa blindum sjón.

Sem sagt: allt það erfiða er búið, núna er bara að ganga frá nokkrum lausum endum.

# # # # # # # # # # # # #

Dyralúgan á heimili mí­nu er ónýt. Hún gafst endanlega upp einn daginn, þar sem vöndullinn með öllum auglýsingapóstinum og dagblöðunum sem ég hef aldrei beðið um reyndist óvenju þykkur.

Nú spyr ég löglærða lesendur þessarar sí­ðu: get ég átt einhvern kröfurétt á hendur 365 miðlum eða Karli Garðarsyni, fyrir spellvirki og eignaspjöll? Ég er sanngjarn maður og bið ekki um mikið – bara að þeir komi hingað og lagi dyralúguna eða setji upp nýja og fjarlægi blaðabunkann sem ég trassa alltaf að fara með í­ næsta endurvinnslugám.