Letidagur á Mánagötu. Vöknuðum laust fyrir hádegið, ég settist við að þrykkja út barmmerkjum fyrir Feministafélagið og Steinunn bakaði sig í sólinni. Ólína er eins og pabbi sinn að því leiti að hún er ekkert gefin fyrir sól – heldur orgaði og reyndi að fletta sig klæðum og sparka af sér yfirhöfnum í svækjunni.
Páll leit við að vinnu lokinni og hjálpaði til við barmmerkjagerðina. Við urðum ásáttir um að bikaúrslitaleikur Fram og Vals yrði hin besta skemmtun.
Litum þvínæst í eins árs afmæli hjá Lilju Fanneyju. Afmælisbarnið fékk reyndar sykursjokk þegar nokkuð var liðið á veisluna og gat ekki hamið aðdáun sína á Helga Gný, sem er rúmlega tveggja og hálfs árs gamall töffari, sem getur gert alls konar brögð sem ársgömlum gríslingum finnst tilkomumikil. Ólína lét sér fátt um finnast, enda í móki vegna hitasvækjunnar. Á komandi árum á hún eftir að ærslast með þessum grísum og eftir svona 5-6 ár verður hún farin að stjórna hópnum. Hún verður leiðtogi, það sést strax á skapinu.
Eftir afmælið leit ég á vídeóleigu og tók myndina Life and Death of Peter Sellers. Kolbeinn Proppé hafði mælt með henni við mig og þar var ekkert ofmælt. Það er afrek að segja sögu með jafn fráhrindandi aðalpersónu, sem þó heldur athygli og samúð allan tímann. Leikararnir standa sig sömuleiðis frábærlega.
# # # # # # # # # # # # #
Og úr því að maður er farinn að blogga um bíómyndir á annað borð – þá var myndin um hungurverkfall IRA-mannanna í fyrrakvöld býsna sterk. Mér er til efs að nokkur stjórn hafi skorað annað eins áróðurslegt sjálfsmark og þegar breska stjórnin lét Bobby Sands deyja í hungurverkfallinu. Þeir sem tjá sig um hryðjuverk og viðbrögð við hryðjuverkum nú um stundir gætu lært margt með því að kynna sér sögu Norður-írlands og þá einkum afleiðingar mismunandi stefnu Breta í málefnum landsins. Ég hef áður spáð því að John Majors verði lengi minnst sem þess forsætisráðherra Bretlands sem lagði grunn að skynsamlegri lausn á Norður-írlandi. Þó ekki sé nema vegna þessa tel ég að eftir 50 ár verði hann í meiri metum en t.d. Thatcher eða Blair, sem fátt hafa afrekað.
# # # # # # # # # # # # #
Bragðlaukar eru sérstakt fyrirbæri. Á kvöld hef ég verið að sötra Júru-viský. Það er ein af tegundunum sem einhverra hluta vegna hefur verið á boðstólum í ríkinu í allnokkurn tíma. Júru-viskýið er gott. Ekki frábært, en vissulega mjög gott.
Fyrir rúmu ári síðan heimsóttum við Júru og áttum þar mjög ánægjulegan dag. Ég er viss um að ef við hefðum ekki farið til eyjarinnar og skoðað brugghúsið, væri ég enginn aðdándi Júru-viskýs. Reyndar minnist ég þess að fyrir nokkrum árum fannst mér lítið til þessarar tegundar koma. Svona geta skringilegir hlutir haft áhrif á bragðskyn manns.
# # # # # # # # # # # # #
Upp á síðkastið hef ég verið að horfa á fyrstu og aðra þáttaröðina af Futurama, sem ég varð mér út um á dvd í bríaríi. Þetta eru snilldarþættir og mun betri en t.d. Simpsons-þættirnir. Einhverra hluta vegna virðast hins vegar engar þáttaraðir verða langlífar í bandarískusjónvarpi nema þær hverfist um kjarnafjölskyldu.
Næst í tækið er 2. tímabilið af Barða Hamri, sem ég fékk í sömu sendingu frá Amazon.
Jamm.