Spásseraði niður Laugaveginn eins og fínn maður með Ólínu í vagni. Hitti fullt af fólki á leiðinni, þ.á.m. Höllu, Siggu bleiku, Þórunni Valdimarsdóttur og Ragnheiði úr Sögufélagi (NB – Sögufélagi ekki Sögufélaginu, félagið heitir Sögufélag án ákveðins greinis – ungsagnfræðingar ruglast oft á þessu).
Leiðin lá til Jóhönnu á Borgarskjalasafn til að fá afrit af raflagnateikningum Mánagötunnar, sem á flestum svona pappírum heitir Mánagata 26 en ekki 24 (upphaflega var nefnilega gert ráð fyrir að byggt yrði tvíbýlt þar sem Mánagata 22 reis).
Alveg er það með ólíkindum kjánalegt að raflagnateikningar séu varðveittar á Borgarskjalasafni. Væri kannski skiljanlegt ef um væri að ræða arf frá gamalli tíð, en þessi tilhögun er nýleg. Núna fara menn í höfuðstöðvar Orkuveitunnar til að fá kort af heimæðum og tegningum frá götu; í Borgartúnið eftir flestum öðrum teikningum – en raflagnirnar eru á Tryggvagötunni. Hvers vegna ekki að hafa þetta á einum og sama staðnum?
Mætti ekki ganga í það verkefni að skanna inn raflagnateikningarnar og koma þeim inn í LUKR-ið? Sjálfur talaði ég raunar fyrir því í erindi á LUKR-ráðstefnu á sínum tíma að reynt væri að taka inn sem mest af gömlum myndum Ljósmyndasafns í kerfið og tengja fastanúmerum húsa þar sem unnt væri. Raflagnateikningarnar eru enn augljósara dæmi.
Annars var fínt að hitta Jóhönnu og ágætt að reka nefið inn á skjalasafnið – það minnti mig á að ég mætti sinna ýmsum sagnfræðiverkefnum sem hafa fengið að sitja á hakanum alltof lengi.
# # # # # # # # # # # # #
Mennirnir með ísskápinn eru ekki komnir enn. Húki heima og bíð. Sé fram á að missa af fisknum hjá tengdó. Urr…