Skandall dagsins í DV er að Alfreð Þorsteinsson haldi einkaþjóna í höfuðstöðvum Orkuveitunnar og að þeir gangi um „stífpressaðir eins og á fínu veitingastöðunum í New York“. Á forsíðu blaðsins má svo sjá mynd af Magga sem stjórnar mötuneyti Orkuveitunnar og Jóa sem á væntanlega að vera annar „einkaþjónninn“ ásamt Palla.
Jói og Palli – hinir meintu einkaþjónar Alfreðs – gætu eflaust plumað sig vel á fínum veitingastað í útlöndum, enda snillingar. Annað er hins vegar ekki að marka frétt DV.
Staðreyndin er sú að Jói og Palli eru eins langt frá því að vera einkaþjónar eins og neins og mögulegt er. Þeir hafa meðal annars þann starfa að bera matinn úr mötuneytinu í matsal okkar starfsmanna, sjá um að nóg sé í öllum trogum og hreinsa til á eftir. Þegar fundir eru í einhverju af hinum ótalmörgu fundarherbergjum höfuðstöðvanna er oft borið fram kaffi eða annað matarkyns (jógúrt, ávextir eða samlokur). Slíkir snúningar koma í hlut Palla og Jóa.
Oft kemur það fyrir að Orkuveitan býður gestum í veitingar. T.d. var í síðustu viku boðið upp á kaffi og súkkulaðikex í tengslum við opnun á skordýra-ljósmyndasýningu á neðri hæð Minjasafnsins – Palli mætti þangað, hellti upp á kaffið og reiddi fram kexið. Og þegar háskólanemar snapa sér vísindaferð í OR og fá 2-3 bjóra fyrir að sitja undir kynningu á fyrirtækinu – þá eru Palli eða Jói mennirnir sem hella bjórnum og fylla á snakkið.
Myndi einhverjum líða betur ef þeir félagar reiddu fram veitingarnar í Orkuveitu-samfestingum? Þetta eru báðir snyrtimenni og vilja vera vel til fara. Ekkert nema gott um það að segja.
Á höfuðstöðvum Orkuveitunnar starfa nokkur hundruð manns og stærstur hluti þeirra étur í mötuneytinu á degi hverjum. Það á því ekki að koma neinum á óvart þótt þessu fylgi snúningar. Að kalla Palla og Jóa einkaþjóna Alfreðs er því merki um að það hafi verið óvenjulítið í fréttum í gær – „Kattakonan“ ekki látið á sér kræla og blaðið ekki lagt í að skrifa aðra frétt um meint fyllerí og dólgslæti ístþórs Magnússonar.