Bóksala í Palestínu

Vef-Þjóðviljinn fjallar í­ dag um fúlmennsku þess að fjölmiðlar ræði um lí­flátshótanir Pat Robertsons í­ garð forseta Venesúela. Að mati Vef-Þjóðviljans eyða fjölmiðlar alltof mikilli orku í­ að segja frá hatri hví­tra, kristinna hægrimanna á fólki af öðrum trúarbrögðum og kynþáttum – en gleymi að segja frá þeim múslimum sem láta svipaðar skoðanir í­ ljósi.

Merkilegt hvað menn geta upplifað fréttirnar á mismunandi hátt. Sjálfum finnst mér ég stöðugt vera að heyra fréttir af illskeyttum múslimum brennandi fána og hafandi í­ hótunum – en kannski er þetta tómur misskilningur í­ mér.

Nema hvað – Vef-Þjóðviljinn nefnir sérstaklega atriði sem vert væri að ræða frekar en morðhótanir Pats Robertsons og vitnar þar í­ pistil eftir Ólaf Teit Guðnason þar sem segir: „Hvers vegna er ekki fjallað um orsakir þess að Mein Kampf var ein vinsælasta bókin meðal Palestí­numanna ekki alls fyrir löngu?“

Vef-Þjóðviljinn hefur lög að mæla. Um þetta hefur lí­tið verið fjallað. Til að kynna mér málið gúgglaði ég hinum ýmsustu samsetningum af orðunum Mein Kampf, Palestí­numenn, bóksala o.s.frv. Á því­ var lí­tið að græða.

Það voru ýmsar greinar um útgáfu á Mein Kampf sem kom út í­ Tyrklandi nýlega og náði metsölu. Þá má finna umfjöllun um útgáfusögu Mein Kampf á arabí­sku, allt frá fjórða áratugnum til okkar daga. Bókaútgáfa í­ Lí­banon gaf þannig út Mein Kampf árin 1963, um 1975 og 1995.

Það mun vera 1995-útgáfan sem á að hafa slegið svona rækilega í­ gegn í­ Palestí­nu. Fyrstu frásagnir af vinsældum bókarinnar virðast vera frá 1999. Það er hins vegar merkilegt að nánast sömu frásagnir af vinsældum Mein Kampf í­ Palestí­nu má lesa frá árunum 1999, 2000, 2002 og 2003 – þar sem alltaf er látið að því­ liggja að nýjar fréttir sé að ræða. Einhverjir staðhæfa að palestí­nska heimastjórnin hafi sjálf látið prenta og dreifa Mein Kampf, en aðrir saka hana bara um að aflétta banni ísraelsstjórnar á sölu bókarinnar.

Sumstaðar er bætt við upplýsingum um að Mein Kampf hafi náð sjötta sæti á lista yfir mest seldu bækurnar í­ Palestí­nu og er þá ví­sað í­ franska fréttastofu – þar sem á annað borð er getið heimilda. Þessi franska fréttastofa, (AGF) vakti athygli á fréttinni um að Mein Kampf hefði komist í­ fjórða sæti á sölulistum í­ Tyrklandi, en þrátt fyrir talsverða gúgglun hef ég enn ekki fundið neinn tengil á hina upprunalegu frétt um sjötta sætið í­ Palestí­nu.

Reyndar hefur mér heldur ekki tekist að finna neinar upplýsingar um opinbera metsölubókalista í­ Palestí­nu yfirhöfuð. Ef haft er í­ huga hversu stutt er sí­ðan í­slenskar bókabúðir – sem eru mjög tölvuvæddar – byrjuðu að gefa út opinbera metsölulista, kæmi það mér mjög á óvart að bókabúðir á landsvæði palestí­nsku heimastjórnarinnar standi í­ slí­ku. – En kannski er það misskilningur í­ mér. Kannski er ég ekki nógu góður að leita á netinu, en þá væri gaman að fá ábendingar um slí­kt.

Er saga Ólafs Teits og Vef-Þjóðviljans um að Mein Kampf væri „ein vinsælasta bókin meðal Palestí­numanna ekki alls fyrir löngu“ þá flökkusögn? Tja, það er freistandi að álykta sem svo.

Annars er ekki ólí­klegt að Mein Kampf hafi selst vel í­ Palestí­nu – því­ sú hefur raunar verið raunin í­ flestum þeim löndum þar sem hún hefur fengist útgefin.

Á Þýskalandi er bannað að selja Mein Kampf og frægt er fyrir nokkrum árum þegar mikið mál var gert úr því­ að bókin væri sú næstsöluhæsta hjá þýskum kaupendum Amazon. – Kallar það að mati Ólafs Teits og Vef-Þjóðviljans á sérstaka rannsókn fjölmiðla á innræti Þjóðverja?

Fjármálaráðuneytið í­ Bæjaralandi gerir tilkall til útgáfuréttarins á Mein Kampf á öðrum tungumálum en ensku og mun hann ekki renna út fyrr en 2015. Þjóðverjarnir standa gegn því­ að bókin sé gefin út. 2015 má hins vegar reikna með útgáfu á fjölda tungumála. Væntanlega mun Mein Kampf þá komast hátt á sölulistum ví­ða um lönd – og valda Vef-Þjóðviljanum hugarangri.

Á Bandarí­kjunum og öðrum enskumælandi löndum er hægðarleikur að nálgast eintök af Mein Kampf og selst bókin í­ stórum upplögum. Góðu heilli benda þessar sölutölur ekki til þess að allt úi og grúi af nasistum í­ heiminum. Lí­klegra er að forvitni ráði för. Mein Kampf er einhver alræmdasta bók í­ heimi og sem slí­k hlýtur hún að seljast – einkum ef um ódýra útgáfu er að ræða.

Á Tyrklandi náði hræódýr útgáfa af Mein Kampf metsölu. Bókin þótti sérstaklega lágt verðlögð miðað við stærð. Myndu Íslendingar ekki kaupa í­slenska þýðingu af þessari frægu bók ef hún byðist fyrir slikk í­ kilju? Ég myndi a.m.k. smella mér á eintak.